Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst vona það að Íslendingar sjái ljósið og mæti í þriðju bólusetninguna gegn Covid-19. Hann segir ekkert einsdæmi að tveir skammtar bóluefnis dugi ekki til að hamla útbreiðslu smitsjúkdóma og að það hafi oft sýnt sig áður að þriðji skammturinn geti reynst nauðsynlegur.
Greint hefur verið frá því að Þórólfur telji þriðja skammtinn af bóluefni mögulega vera leiðina út úr faraldrinum. Vísaði hann þá meðal annars til rannsókna frá Ísrael sem benda til þess að þriðja sprautan sé 90% virkari en önnur til að koma í veg fyrir smit.
„Örvunarskammturinn er í fyrsta lagi mjög áhrifaríkur til að vernda mann sjálfan fyrir smiti og í öðru lagi vernda gegn alvarlegum afleiðingum. Miklu betur en skammtur tvö. Auk þess er skammtur þrjú mjög áhrifaríkur til að koma í veg fyrir smit sem myndi þá hindra útbreiðslu í samfélaginu. Þannig að samfélagslega séð er þriðji skammturinn nauðsynlegur. Þegar við erum að reyna að benda fólki á að þetta sé leiðin til að komast út úr faraldrinum, þá vona ég að fólk sjái ljósið og mæti,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is
Nú þegar hafa 89% landsmanna, 12 ára og eldri, verið fullbólusett. Þá hafa 66.842 fengið örvunar- eða viðbótarskammt, samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is. Spurður hvort hann telji að sóttvarnayfirvöld nái að sannfæra almenning um mikilvægi þess að mæta í þriðja skammtinn í ljósi þess að fyrri skammtar hafa ekki skilað tilætluðum árangri, kveðst Þórólfur vona að það muni nást. Hann segir þó ómögulegt að vita hvort mæting í þriðja skammtinn verði dræm.
„Þegar við bundum vonir við skammt númer tvö, að tvær bólusetningar mundu duga, þá vorum við með niðurstöður rannsókna um virkni bóluefnisins á fyrri afbrigðum. Svo kemur þetta delta-afbrigði sem hegðar sér aðeins öðruvísi og er meira smitandi og bóluefnin virka ekki alveg jafn vel gegn. Þannig að við getum ekki gert neitt annað en bent á niðurstöður um virkni bóluefnanna gegn þeim afbrigðum sem eru í gangi. Eins og staðan er núna þá held ég að það sé hægt að vera vongóður um það að þriðja bólusetningin muni koma okkur út úr þessu vandamáli með delta-afbrigðið.“
Þórólfur vekur einnig athygli á því að það sé ekkert einsdæmi að þriðji skammturinn af bóluefni geri útslagið. Vísar hann þá meðal annars til bólusetningar barna en til að ná fram góðri virkni þarf oft að bólusetja börn þegar þau eru þriggja, fimm og 12 mánaða gömul.
„Ég bendi nú líka á að það þarf ekki að koma á óvart að tvær sprautur séu kannski ekki alveg fullnægjandi. Við sjáum það bara með flest bóluefni. Tvær sprautur eru ekki alveg nógu fullnægjandi gegn smitsjúkdómum. [...] Við sjáum þetta líka með bóluefni gegn lifrarbólgu B. Tvær sprautur duga ekki nema með takmörkuðu leyti til að koma í veg fyrir smit og dreifingu. Þannig að þriðja bólusetningin er nauðsynleg til að ná mjög góðri virkni. Þetta er ekkert einsdæmi með bóluefni.“
Nú þegar hafa önnur ríki heims á borð við Ísrael tekið upp á því að veita íbúum sínum fleiri en einn örvunarskammt. Á móti kemur að stórum hluta þjóða, m.a. í heimsálfunum Afríku og Asíu, hefur ekki tekist að bólusetja nema lítið brot af íbúum sínum.
Aðspurður segir Þórólfur misskiptingu bóluefnis milli landa og heimsálfa vissulega áhyggjuefni. En okkur beri líka skylda til að reyna að skapa hér eins mikla vernd með bólusetningu og mögulegt er. Hafi stjórnvöld meðal annars ákveðið þetta.
Hann vekur þá einnig athygli á því að Ísland hefur tekið þátt í samstarfsverkefnum þar sem búið er að kaupa og dreifa gríðarlegu magni af bóluefni til annarra landa.