500 mega koma saman og afgreiðslutími styttur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti hertar aðgerðir í sóttvörnum á föstudaginn.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti hertar aðgerðir í sóttvörnum á föstudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á miðnætti tóku í gildi hertar sóttvarnaaðgerðir samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra sem kynnt var á föstudag. Kveður hún á um afgreiðslutíma, fjöldatakmörk og grímuskyldu.

Afgreiðslutími kráa, skemmtistaða og veitingahúsa með vínveitingaleyfi hefur verið styttur um tvær klukkustundir. Er þeim gert að loka klukkan 23 og rýma verður staðinn eigi síðar en á miðnætti.

Fjöldatakmörk niður í 500

Hámarksfjöldi fólks í sama rými hefur færst úr tvö þúsund í 500, með ákveðnum takmörkunum. Nær það bæði til opinbers og einkarýmis, bæði úti og inni. Þá er enn heimilt að halda stærri viðburði með allt að 1.500 manns að því gefnu að einstaklingar skili inn neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.

Börn fædd 2016 eða síðar eru undanskilin fjöldatakmörkunum. 

Á sitjandi viðburðum er heimilt að falla frá eins metra nálægðarmörkum en þar þarf einnig að skrá alla gesti í sæti með nafni, kennitölu og símanúmeri, og þurfa þeir að bera andlitsgrímu. Varðveita skal skráninguna í tvær vikur.

Fólk sem veitir þjónustu sem krefst nándar undanskilið grímunotkun

Grímuskyldan tók strax í gildi síðastliðinn laugardag en hún er í gildi innandyra þar sem ekki er unnt að tryggja eins metra nálægðarmörk, til að mynda í verslunum, á heilbrigðisstofnunum og á snyrtistofum.

Athuga skal að starfsfólk sem veitir einstaklingsbundna þjónustu sem krefst nándar þarf ekki að bera grímu heldur einungis viðskiptavinurinn. Hágreiðslufólk þarf því til að mynda ekki að bera grímu.

Þá eru börn fædd 2006 eða síðar undanskilin grímuskyldunni og kennurum og nemendum sem eru fæddir 2005 eða fyrr er einnig heimilt að taka niður grímu þegar þeir hafa sest í sæti sitt í skólastofu. Eins gildir grímuskylda ekki á framhaldsskólaskemmtunum.

Hægt er að skoða nýju sóttvarnaaðgerðirnar betur inni á vefsíðunni covid.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert