Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynnti í viðtali við Morgunblaðið 13. mars sl. að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum eftir alþingiskosningarnar 25. september. Aðrir ráðherrar voru kjörnir á þing, en hann er ekki lengur þingmaður. Engu að síður er hann enn ráðherra og bíður rólegur eftir því að skila lyklunum í hendur næsta manns.
„Staðan er óvanaleg en svona er þetta,“ segir Kristján með stóískri ró. „Ég er enn í þessu starfi, sinni því sem mér var falið og læt ekkert rugla það, er hvorki að leita mér að vinnu né spá í hvað tekur við.“
Dalvíkingurinn var snemma orkumikill, keppti í frjálsíþróttum og á skíðum fyrir Ungmennafélag Svarfdæla, fór fyrst á togara tæplega 16 ára, aflaði sér menntunar, er með skipstjórnarréttindi og var síðar stýrimaður, skipstjóri og kennari, en hefur verið í stjórnmálum undanfarin 35 ár; fyrst sem bæjarstjóri á Dalvík, Ísafirði og Akureyri í samtals 20 ár og síðan sem alþingismaður Norðausturkjördæmis frá 2007, þar af sem ráðherra frá 2013. „Ég er vanur því að standa vaktina og stend þessa þar til henni lýkur, en málin skýrast væntanlega fljótlega.“
Kristján býr á Akureyri. „Ég var talsmaður ÍBA í fótboltanum og er KA-maður eins og fjölskyldan.“ Hann segist alltaf hafa stundað skíði á veturna og farið í stangveiði á sumrin og á því verði ekki breyting. „Ég keppti í göngu og svigi í gamla daga og eftir að hafa ekki stigið á gönguskíði í áratugi keypti ég mér gönguskíði í fyrra og fór að rifja upp gamla takta. Síðan keypti ég mér ný svigskíði á dögunum og er því tilbúinn í slaginn, jafnt í göngu sem í svigi.“