Yfirstjórn Menntamálastofnunar (MMS) og Arnór Guðmundsson, forstjóri stofnunarinnar, fá falleinkunn í áhættumati sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi að ósk menntamálaráðuneytisins.
Að sögn Fréttablaðsins sýna bráðabirgðaniðurstöður að sjö af ellefu áhættuþáttum eru metnir rauðir. Það táknar óviðunandi áhættu sem er nauðsynlegt að bregðast við án tafar.
Meirihluti starfsfólks hefur lýst yfir vantrausti á hendur Arnóri. Í niðurstöðunum segir: „…núverandi stjórnarhættir hafa skapað óæskilegan starfsanda sem ógnar öryggi og heilsu starfsfólks“.
Meðal annars kemur fram í matinu að helmingur starfsfólks telur sig hafa orðið vitni að eða upplifað einelti, kynferðislega, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað.