Fólk þurfi ekki að óttast að sækja viðburði

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live.
Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live. Eggert Jóhannesson

Fólk þarf ekki að óttast það að sækja skipulagða viðburði þar sem sóttvarnir eru í hávegum hafðar. Það þarf hins vegar að venjast því að fara í hraðpróf vegna kórónuveirunnar áður en það sækir viðburðina. Þetta segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri viðburðafyrirtækisins Senu Live, í samtali við mbl.is.

Þrátt fyrir talsverðan uppgang í kórónuveirusmitum og hertar sóttvarnaraðgerðir mun tónleikahald Senu Live haldast óbreytt, að því er greint frá í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Minni áhætta en af óformlegum samkomum

„Það er ekki hægt að setja allar samkomur undir einn hatt. Það er ekki hægt að bera til dæmis tónleika Andrea Bocelli, sem er skipulagður viðburður á vegum fyrirtækis þar sem öllum sóttvarnarreglum er fylgt út í ystu æsar, við eitthvað óformlegt karaoke-kvöld úti í bæ,“ segir Ísleifur.

Viðburðahaldarar séu langþreyttir á þeirri óvissu sem ríkt hefur í geiranum frá því faraldurinn hófst en þeir séu ekki síður þreyttir á þeirri umræðu um að áhættusamt sé að halda eða sækja skipulagða viðburði, að sögn hans.

„Við höfum leyfi til að halda viðburði og erum öll að fylgja reglunum. Samt er verið að tala stóra viðburði niður eins og þeir séu eitthvað hættulegir og fólk að velta vöngum yfir því hvort það sé óhætt að sækja þá, þrátt fyrir að þar séu allar sóttvarnaraðgerðir í hávegum hafðar. Það vofir alltaf yfir að það eigi að skella öllu í lás hjá okkur, þótt það hafi ekki komið upp nein smit á þessum skipulögðu viðburðum og við erum orðin svolítið þreytt á því.“

Öruggasta leiðin til að lifa lífinu

Heldur hann því fram að öruggasta leiðin fyrir fólk til að fara út og lifa lífinu sé að sækja skipulagða viðburði á borð við tónleika Bocelli sem haldnir verða í Kórnum í Kópavogi 27. nóvember næstkomandi, með formlegu samþykki sóttvarnaryfirvalda og í samræmi við gildandi lög og reglur.

Við erum með öll tilskilinn leyfi, her af fólki í gæslu og sérfræðinga sem eru að skipuleggja flæðið inn og út úr húsinu. Allir gestir verða sendir í hraðpróf, svæðinu verður skipt upp í sóttvarnarhólf og öll sæti númeruð. Við vitum nákvæmlega hverjir eru að koma, klukkan hvað þeir koma, hvar þeir labba inn og hvar þeir sitja.“

Andrea Bocelli mun koma fram í Kórnum í Kópavogi 27. …
Andrea Bocelli mun koma fram í Kórnum í Kópavogi 27. nóvember n.k.

Segir tenórinn Andrea Bocelli vera í „búbblu“

Inntur eftir því segir hann Bocelli og hans fólk ekki uggandi yfir stöðu faraldursins hér á landi enda séu þau búin að vera á tónleikaferðalagi um heiminn og því orðin öllu vön.

„Bocelli er bara í sinni „búbblu“ að ferðast á milli landa og allt gert til að tryggja að ekkert komi upp á sem hefur bara tekist ágætlega. Auðvitað er alltaf einhver hætta á að það komi upp smit en menn hafa bara tekið ákvörðun um að það sé ekki eftir neinu að bíða og hans fólk er upplýst um stöðuna. Það þekkir reglurnar og veit hvaða aðgerðir eru í hverju landi fyrir sig þannig þau eru ekkert uggandi.“

Til að hægt sé að halda tónleikana með góðu móti megi sóttvarnaraðgerðir þó ekki verða mikið harðari en þær eru núna, að sögn Ísleifs. 

„Ef það þarf að fara skipta salnum upp í mikið fleiri svæði þá gæti það orðið svolítið til vandræða. Það væri ólýsanlega niðurdrepandi fyrir alla ef tónleikunum yrði aflýst en við höldum því fram að það sé alveg hægt að halda þá á öruggan hátt enda hafi smit ekki verið að koma upp á viðburðum sem þessum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert