„Fólki var smá brugðið“

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segist vona að búið sé að ná utan um hópsmit kórónuveiru sem upp kom í bænum um helgina. 

Hann segir að lítið megi út af bregða til þess að veiran fari á flug í bænum aftur, en miðað við að aðeins eitt smit greindist í bænum í gær sé ástæða til þess að vona það besta. 

Alls hafa þá rúmlega 130 manns greinst vegna hópsmitsins á Akranesi. 

„Fólki var smá brugðið,“ segir Sævar í samtali við mbl.is, spurður að því hvernig bæjarbúar hefðu tekið fréttum af stóru hópsmiti um helgina. 

„Við vonum að við séum búin að sjá toppinn á þessari bylgju sem við sáum hér,“ bætir Sævar við. 

Enginn alvarlega veikur

Sævar segist ekki enn hafa heyrt af neinum sem veiktist alvarlega vegna hópsmitsins og þakkar hann bólusetningum gegn veirunni fyrir. Þó veit hann til fólks sem er þónokkuð veikt þrátt fyrir að flestir hinna smituðu séu bara ansi brattir enn.

Skólum var lokað á Akranesi á mánudag vegna smitsins en hafa nú verið opnaðir aftur og hefur það gengið vel, að sögn Sævars, þrátt fyrir að erfitt hafi verið að manna stöðugildi vegna fjölda í sóttkví. 

Þar að auki ákváðu nokkur fyrirtæki að loka sinni starfsemi þegar hópsmitsins var vart en búið er að opna þau flest að nýju og líf að færast í samt horf. 

Eins og fyrr segir telur Sævar að lítið megi út af bregða til þess að hópsmitið taki sig upp að nýju og því hvetur hann Skagamenn, sem og aðra, til þess að fara varlega og gæta vel að persónubundnum sóttvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert