Getum losnað við jarðefnaeldsneyti

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Árni Sæberg

Tækifæri eru til að Ísland geti orðið fyrsta ríkið í heiminum til að verða alveg óháð jarðefnaeldsneyti, að mati Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar.

Það gæti gerst með þriðja orkuskiptaskrefinu, til viðbótar við rafvæðinguna og hitaveituvæðinguna, og fælist meðal annars í orkuskiptum í samgöngum og framleiðslu á rafeldsneyti. Til þess að það geti orðið að veruleika þurfi að auka orkuvinnslu í landinu.

Viðhorfsbreyting hefur orðið

„Loftslagsmálin eru fyrst og fremst orkumál. Þrír fjórðu af losun gróðurhúsalofttegunda eru tengdir orkuvinnslu,“ segir Hörður um þátttöku fyrirtækisins í loftslagsráðstefnunni í Glasgow.

Landsvirkjun tekur þátt í hliðarviðburðum þar. Þannig talaði Hörður á málstofunni „Leiðir að kolefnishlutlausri raforkuframtíð“ í fyrradag og ræðir um orkuskipti Íslands og rafeldsneyti við Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra í pallborði á „Sustainable Innovation Forum“ í dag.

Hörður segir að tækifærið sé einnig notað til að hitta fulltrúa samstarfsfyrirtækja og annarra orkufyrirtækja.

„Það er gott að líta til baka, til loftslagsráðstefnunnar í París árið 2015, og sjá hvað margt hefur breyst. Mikill árangur hefur náðst, eins og við sjáum hlutina. Kostnaðarverð á vind- og sólarorku hefur hríðlækkað sem er jákvætt fyrir loftslagsmálin. Rafvæðing samgangna hefur gengið betur en reiknað var með. Viðhorfsbreyting hefur orðið hjá stóru alþjóðlegu framleiðslufyrirtækjunum. Í París voru þau meira áhorfendur, að fylgjast með, en núna koma þau hvert á fætur öðru með skýrar áætlanir og mikið fjármagn til að vinna að því að verða kolefnishlutlaus. Ég tel að það sé vegna viðhorfsbreytinga og þrýstings frá almenningi. Þannig að margt jákvætt hefur gerst. Spennandi verður að sjá hvað gerist í framhaldinu,“ segir Hörður.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert