„Okkur langaði til að gera eitthvað í minningu Erlu. Hún var partur af samfélaginu okkar og við erum í mjög þéttu samfélagi hérna í Skagafirði,“ segir Helena Erla Árnadóttir, formaður Nemendafélags Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, í samtali við mbl.is.
Nemendafélagið stendur í kvöld fyrir viðburðinum: Látum Skagafjörðinn lýsa fyrir Erlu Björk. Þar eru Skagfirðingar hvattir til að kveikja á útikerti í minningu Erlu Bjarkar Helgadóttur sem varð bráðkvödd þann 2. nóvember síðastliðinn. Hún lætur eftir sig eiginmann og fjögur börn.
„Okkur langaði að votta fjölskyldunni samúð okkar og fá sem flesta til að taka þátt. Sonur hennar er í fjölbrautaskólanum hjá okkur. Þetta er lítill skóli og við viljum gera allt sem við getum fyrir hann og fjölskylduna hans.“
Helena segir hugmyndina hafa kviknað vegna þess að árlega er haldinn ljósadagur í Skagafirði þar sem látinna einstaklinga úr samfélaginu er minnst. Erla hefði orðið fertug í dag og því fannst þeim viðeigandi að minnast hennar með þessum hætti í dag.
„Okkur fannst þetta fallegt og höfum fengið mjög góð viðbrögð frá fjölskyldunni. Þau eru þakkát fyrir þetta, öll fjölskyldan hennar,“ segir Helena. Viðbrögð annarra hafi einnig verið mjög góð. Viðburðurinn sé líka þess eðlis að allir geti tekið þátt og þannig vottað fjölskyldunni samúð og sýnt stuðning.
„Maður veit ekki alltaf hvernig maður á að nálgast fólk í aðstæðum sem þessum. Hún varð bráðkvödd og það eru flestir sem vilja gera eitthvað en þora ekki að koma að fjölskyldunni. Vilja gefa þeim rými, en samt gera eitthvað fyrir þau,“ útskýrir Helena.
„Við erum ótrúlega þakklát fyrir hvað það eru margir sem taka rosalega vel í þetta. Við höfum fengið hrós úti í búð fyrir að leggja þetta til og erum ánægð með viðtökurnar.“
Helena hvetur alla Skagfirðinga til að setja út kerti klukkan átta í kvöld og lýsa þannig upp Skagafjörðinn í minningu Erlu.
Þeim sem vilja minnast Erlu er bent á minningarsjóð, en númer hans er 0310-22-000021, og kennitalan er 161181-5529.