Íslendingar treysta konum best til þess að gegna leiðtogastöðum samkvæmt niðurstöðum Reykjavik Index-mælikvarðans. Mælingin byggir á könnun sem framkvæmd er í öllum G-20 ríkjunum, tuttugu stærstu iðnríkjum heims, Póllandi og nú í fyrsta sinn á Íslandi.
Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar og ræddar í pallborðsumræðum á Heimsþingi kvenleiðtoga sem sett var í Hörpu í gær.
Af hundrað mögulegum stigum mældist Ísland með 92 stig, þar sem hundrað stig myndu þýða að karlar og konur þættu jafnhæf til stjórnunarstarfa á öllum sviðum samfélagsins. Meðalstigafjöldi á meðal G-7-ríkjanna var 73 og 68 á meðal G-20-ríkjanna.
Í rannsóknarskýrslunni frá alþjóðlega rannsóknarfyrirtækinu Kantar segir að Ísland hafi með þessum niðurstöðum fest sig rækilega í sessi sem leiðandi þjóð þegar kemur að jafnrétti kynjanna.