Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis er nú á lokametrunum að setja saman málsatvikalýsingar á talningu atkvæða fyrir Norðvesturkjördæmi og er gagnaöflun langt komin. Þá stefnir nefndin á að fara í vettvangsferð til Borgarness snemma í fyrramálið þar sem nefndarmenn munu skoða kjörgögnin og leita svara við spurningum sem ekki hefur enn tekist að varpa ljósi á.
„Þetta mjakast allt. Við erum ágætlega stödd núna en hins vegar þá eigum við svolítið í land með að komast að niðurstöðum,“ segir Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, spurður út í gang mála.
Hann segir gagnaöflun nú að mestu lokið en að hins vegar séu umræður um ýmsa matskennda þætti eftir sem lúta að upplýsingum sem nefndin hefur undir höndum. Þarf meðal annars að skoða þá út frá lagalegum sjónarmiðum.
„Sá lagarammi sem við þurfum að taka tillit til eru náttúrulega kosningalögin og þingsköp Alþingis. Það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi eru ákveðnir matskenndir þættir sem snúa að því hvort gallar á framkvæmd kosninganna séu þess eðlis að þeir geti leitt til ógildingar kjörbréfa. Það er það sem kosningalögin kveða á um í sambandi við mat á niðurstöðu kosninga.“
Undirbúningsnefndin er nú á lokametrunum að setja saman endanlega málsatvikalýsingu. Drög að lýsingunni birtust á vef Alþingis á mánudag og hefur nefndin óskað eftir athugasemdum. Hafa þeir nú þegar fengið nokkrar og er búist við að þeim muni fjölga fyrir lok dags.
„Tilgangur okkar með því að birta þetta opinberlega er að fá fram athugasemdir upp á það að málsatvikalýsingin geti orðið sem réttust og nákvæmust miðað við aðstæður.
Við vöktum sérstaklega athygli hjá þeim sem sendu inn kærur, hjá yfirkjörstjórnarmönnum og öðrum sem við höfum verið í samskiptum við. Þeir sem eru að senda athugasemdir eru úr þeim hópi.“
Nefndin stefnir nú í þriðju vettvangsferðina til Borgarness í fyrramálið þar sem að ákveðnir þættir er varða kjörgögnin verða skoðuð. Birgir vildi ekki fara nánar út í hvað væri verið að fara að skoða en að greint yrði frá því seinna í fundargerð nefndarinnar.
„Þegar við erum í svona ferli þá auðvitað vakna ýmsar spurningar í málsmeðferðinni. Þetta er liður í því að reyna að svara þeim spurningum sem við getum.“