Matið standist ekki kröfur um hófsemd og nærgætni

Arnór Guðmundsson forstjóri sendi frá sér yfirlýsingu vegna áhættumats Auðnast.
Arnór Guðmundsson forstjóri sendi frá sér yfirlýsingu vegna áhættumats Auðnast. mbl.is/Árni Sæberg

Menntamálastofnun metur það svo að vinnubrögð við áhættumat sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi á stofnuninni, að ósk menntamálaráðuneytisins, sem og framsetning þess og ályktanir standist í mörgum atriðum ekki faglegar og eðlilegar kröfur um nærgætni, hófsemd og stillingu við úrvinnslu gagna við mála af þessum toga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Menntamálastofnun sem undirrituð er af Arnóri Guðmundssyni forstjóra.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að yfirstjórn stofnunarinnar og forstjórinn hefðu fengið falleinkunn í áhættumati Auðnast. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum sem Fréttablaðið vísar í eru sjö af ellefu áhættuþáttum metnir rauðir, sem táknar óviðunandi hættu sem nauðsynlegt sé að bregast við án tafar.

Þar segir að „núverandi stjórnarhættir hafi skapað óæskilegan starfsanda sem ógnar öryggi og heilsu starfsfólks.“ Einnig kemur fram að helmingur starfsfólks telji sig hafa orðið vitni að eða upplifað einelti, kynferðislega, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað.

Þá hafi tillögur um greiningu, fræðslu og stjórnendahandleiðslu ekki borið árangur og dæmi séu um „alvarlegar afleiðingar á sjálfsmynd og lífsánægju starfsfólks.“

Unnið sé hörðum höndum í bættum starfsanda

Í yfirlýsingu Menntamálastofnunarinnar kemur fram að hallað hafi á starfsánægju hjá fyrirtækinu um tveggja ára skeið og spili þar inn fjöldi þátta. Meðal annars það að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki sett reglur, sem lög mæla fyrir um, og eiga að marka störfum stofnunarinnar almennan ramma. Þá hafi heimsfaraldur haft sitt að segja.

Unnið sé að því hörðum höndum að bæta stjórnarhætti og starfsanda og leiðrétta það sem aflaga hafi farið, innan þeirra marka sem fjárlög og starfsheimildir setja. Tekið verði tillit til viðhorfa starfsmanna í þeim efnum og áhersla lögð á að endurvinna góðan árangur sem áður hafi náðst í bæta starfsanda hjá stofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert