„Róðurinn hefur þyngst mikið en margir hafa komið til skoðunar og meðferðar á göngudeildinni,“ segir Runólfur Pálsson einn af yfirmönnum Covid-göngudeildarinnar í samtali við mbl.is. 178 smit greindust innanlands í gær og eru alls 1.353 í einangrun og þar af leiðandi í eftirliti göngudeildarinnar.
„Við leggjum áherslu á að koma í veg fyrir innlögn ef hægt er að sinna meðferðinni á göngudeildinni sjálfri,“ segir Runólfur.
Hann segir að smitaðir séu flokkaðir eftir litakerfi sem meti alvarleika veikinda og áhættu á innlögn. Gulir, sem eru með umtalsverð einkenni og þarf að fylgjast sérstaklega vel með, hafa verið í kringum 50 síðustu daga.
„Við erum að koma á laggirnar rafrænum lausnum til að miðla upplýsingum því það er gríðarlega mikið fyrirtæki að hringja í alla sem eru í einangrun,“ segir Runólfur.
Runólfur bendir á að af þeim sem smitist geti 4-5% veikst, jafnvel alvarlega, en 2% af öllum þurfi að leggja inn á spítala.„Ekkert af þessu kemur á óvart. Eftir því sem fjöldinn er meiri eru fleiri sem þurfa sérstakrar meðferðar við.“
Hann ítrekar mikilvægi bólusetningar en þær draga úr alvarleika veikinda og stór hluti smitaðra fær lítil einkenni veirunnar. Runólfur hvetur fólk til að þiggja alla þá bólusetningu sem í boði er.
Hertar sóttvarnaaðgerðir tóku gildi á miðnætti en grímuskylda hefur aftur tekið gildi og þá mega 500 koma saman í stað 2.000. Spurður hvort aðgerðirnar dugi til að draga úr fjölda smita og halda þannig álaginu á spítalanum viðráðanlegu segir Runólfur að treysta þurfi á einstaklingsbundnar sóttvarnaaðgerðir:
„Við vitum að ef fólk fylgir ákveðnum reglum, með áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir og gætir sín þá minnka líkurnar á smiti mjög mikið. Við verðum að treysta fyrst og fremst á fólkið í landinu að það gæti mjög að þessu,“ segir Runólfur.
Hann bætir við að það verði að koma í ljós á næstunni hversu vel tekst til með það:
„Þessi mikli fjöldi smita í því samhengi er stórt áhyggjuefni og sýnir að fólk hafi ekki gætt að sér og áframhaldandi svipaður smitfjöldi gæti yfirbugað okkar getu til að sinna þessu. Ef það gerist þarf að grípa til harðari aðgerða.“