Mikill viðbúnaður er nú við Reynisfjöru þar sem leitað er að manneskju sem fór í sjóinn. Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út, sem og björgunarskip frá Vestmannaeyjum, þyrla Landhelgisgæslunnar og fleiri viðbragðsaðilar úr Reykjavík.
Tilkynning um að manneskja hefði líklega farið í sjóinn barst rétt fyrir klukkan þrjú í dag.
Þetta staðfesta Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, og Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Samkvæmt heimildum mbl.is var um 20 manna hópur ferðamanna á svæðinu og lentu tveir einstaklingar í sjónum. Annar þeirra komst uppúr af sjálfsdáðum en hins er saknað.
Vegna erfiðra skilyrða er ekki hægt að sjósetja björgunarbáta á þessum stað og því er beðið eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar.