„Við erum farin að svipast um eftir auknu plássi,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. Farsóttarhús í Reykjavík og á Akureyri eru nánast full af fólki í einangrun og komast færri að en vilja. Vegna mikils fjölda smita undanfarna daga er stefnt að því að opna annað hús í höfuðborginni.
„Frá 1. nóvember hafa 165 komið í einangrun til okkar,“ segir Gylfi og ítrekar það sem áður hefur komið fram; í farsóttarhúsum dvelur nú eingöngu fólk í eingrun sem hefur smitast af Covid.
Hælisleitendum sem þurfa í fimm daga sóttkví við komuna til landsins er vísað annað en þeir geta ekki lengur dvalið í húsunum, sökum plássleysis. Gylfi bendir á að Útlendingastofnun sjái nú um sóttkví þeirra.
Gylfi segir Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið vinna að því að opna annað farsóttarhús og býst við því að það mál verði klárt síðar í dag eða í fyrramálið.
„Við erum fyrstu varðmenn Landspítalans. Stór hluti gesta hjá okkur yrði annars innlagður á spítalann. Eins og alþjóð veit ræður spítalinn ekki við það.“