Eftirlit umboðsmanna við framkvæmd síðustu Alþingiskosninga var óskilvirkt og í sumum tilfellum ómögulegt og er mikilvægt að bæta úr því. Væri þá meðal annars ráð að leyfa umboðsmönnum að njóta vafans þegar þeir sinna eftirlitshlutverki sínu og verða að þeim beiðnum sem þeir leggja fram.
Þetta kemur fram á minnisblaði sem umboðsmenn lista Pírata í Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum, þeir Indriði Ingi Stefánsson og Jón Þór Ólafsson, sendu á Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar.
Á minnisblaðinu er fjallað um mikilvægi eftirlits umboðsmanna við kosningar og bent á það sem betur mætti fara. Er þá meðal annars vakin athygli á því að sé eftirlitið ábótavant geti það skaðað þá hagsmuni er fylgja trausti almennings, framboða og alþjóðasamfélagsins.
„Við framkvæmd kosninga komu fram nokkur atriði sem gera eftirlit umboðsmanna óskilvirkt og í sumum tilfellum ómögulegt. Það felst tækifæri í því að taka á þeim atriðum. Það eru jafnframt hagsmunir þeirra sem starfa við kosningar að verða ekki að ósekju fyrir ásökunum um að hafa haft rangt við. Í þessu felst ekki ásökun að nokkur ásetningur hafi verið að hafa rangt við í nýliðnum kosningum í þeim kjördæmum sem við sem umboðsmenn störfuðu við eftirlit,“ segir í minnisblaðinu.
Er þar meðal annars bent á umboðsmenn Pírata hafi ekki í öllum tilfellum fengið að innsigla raufar kjörkassa en ef það er ekki gert fyrir flutning er möguleiki á að bæta atkvæðum í eða hrista úr.
Auk þess hafi umboðsmenn í Suðvestur aldrei komist nálægt atkvæðum. Hafi ávallt verið nokkra metra fjarlægð milli þeirra og atkvæðanna. Kom þetta í veg fyrir að þeir gætu komið auga á ef rangt væri talið. Nýleg dæmi úr Norðvesturkjördæmi undirstrika einnig að sá möguleiki liggi alltaf fyrir.
„Með því að gefa umboðsmönnum tækifæri til að taka stikkprufu úr þeim bunkum sem þeir óska og yfirfara þá væri hægt að auka traust umboðsmanna á því að rétt hafi verið talið. Þetta mætti bæði gera við talningu og að talningu lokinni.“
Í minnisblaðinu er einnig vakin athygli á því að gott væri að sjá tölfræði yfir þau atkvæði sem umboðsmenn fá ekki að taka afstöðu til og rökstuðningur þess efnis, en umboðsmenn fá ekki aðgang að öllum ógildum seðlum.
Hafi þetta atriði vakið upp ósætti meðal umboðsmanna í Suðvesturkjördæmi við síðustu kosningar.
Er þá lögð fram sú almenna tillaga að leyfa umboðsmönnum að njóta vafans og að þeim verði veitt heimild til að sinna þeim verkefnum sem þeir fara fram á að því gefnu að það auki öryggi kosninga en jafnframt gefi ekki færi á að hafa áhrif á niðurstöðuna
„Að þessu öllu sögðu ætti að vera eins mikið samræmi milli kjörstaða og kostur er. Á þessu var nokkur misbrestur í síðustu kosningum. Kostirnir á því að samræma framkvæmdina eru ótvíræðir.
Að lokum voru gefin út nokkur rit er vörðuðu framkvæmd kosninga til dæmis um almenna framkvæmd og túlkun vafaatriða. Með því að gera sambærilegt rit um hlutverk og framkvæmd eftirlits umboðsmanna hefðu umboðsmenn skýra heimild til að vísa í.“