Landsréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að karlmaður skuli sæta gæsluvarðhaldi til 30. nóvember vegna fjölmargra mála er varða hann og eru til rannsóknar lögreglu.
Samkvæmt úrskurði héraðsdóms frá því í síðustu viku er maðurinn með á þriðja tug opinna mála til meðferðar hjá lögregla. Um er að ræða ýmis konar auðgunarbrot sem og brot er hafa beinst gegn lífi og líkama fólks.
Samkvæmt áðurnefndum úrskurði er rannsókn á nokkrum málum lokið og von á ákæru vegna þeirra.
Þar er um að ræða þjófnaði, vopnalaga- og fíkniefnabrot og líkamsárás, hótanir og hatursorðræðu.
Meðal annars stöðvaði öryggisvörður í verslun á höfuðborgarsvæðinu manninn í apríl á þessu ári eftir að ákærði hafði hótað starfsmanni líkamsmeiðingum og haft uppi hatursorðræðu með meiðandi athugasemdum um uppruna hans m.a. með því að viðhafa ummælin: „you fucking foreigner, I‘m gonna fuck you up.“
Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, segir meðal annars að ljóst þyki að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir áframhaldandi brotahrinu kærða.
Úrskurður Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur.