Hundrað smit eftir villibráðarhlaðborð í Garðabæ

Horft yfir Garðabæ.
Horft yfir Garðabæ. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kórónuveirufaraldurinn er áfram í miklum vexti og hópsýkingar blossa upp hér og þar; til að mynda hafa hundrað smitast eftir villibráðarkvöld í Garðabæ síðasta föstudagskvöld.

„Þetta er sama og við erum búin að segja undanfarna daga. Við erum áfram í miklum vexti og erum að sjá hópsýkingar koma upp frá skemmtanalífi og hlaðborðum. Við erum til að mynda að sjá hátt í hundrað smit greinast frá einu hlaðborðinu frá síðustu helgi,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við mbl.is.

Jóhanna Jakobsdóttir líftölfræðingur gagnrýndi stöðuna í Garðabæ á Twitter í gærkvöldi og sagði bæinn „pestarbæli“. Hún sagði enn fremur að heil hrúga hefði smitast eftir villibráðarkvöld og sagði rakningu ábótavant í bænum.

Þórólfur vill ekki gagnrýna rakningu og segir hana, eins og allt annað, mun flóknari þegar smit eru jafn mörg og raun ber vitni.

„Þetta eru eitthvað um 200 smit á dag og bara 40% í sóttkví. Við höfum allan tímann sagt að þegar við erum komin í þennan fjölda lætur eitthvað undan. Rakningin verður ekki eins góð og við missum af einhverju. Sama á við um Covid-göngudeildina.“

Sóttvarnalæknir gagnrýnir þá sem standa fyrir stórum viðburðum þar sem sóttvarnir eru ekki í hávegum hafðar:

„Ég held að það eigi frekar að beina spjótum sínum að fólki sem stendur fyrir svona viðburðum án tilhlýðilegra sóttvarna og krefjast ekki hraðgreiningarprófa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert