„Hvarflaði ekki að mér að hann færi að deyja“

María Anna sýnir mynd af sjálfri sér í félagsskap feðganna …
María Anna sýnir mynd af sjálfri sér í félagsskap feðganna Hilmars Sigurbjartssonar og Eyþórs Más Hilmarssonar heitinna, en þeir féllu frá með nokkurra vikna millibili í sumar og haust. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég fékk að vita í mars að Eyþór sonur minn væri með krabbamein. Þá hringir hann í mig og segir mér að þetta sé ekki tannkýli heldur eitthvað verra,“ segir María Anna Þorsteinsdóttir, íslenskukennari við Tækniskólann, í samtali við Morgunblaðið, þar sem við sitjum í vistlegri íbúð hennar á fjórðu hæð við Stigahlíðina í Reykjavík. „Hér er engin lyfta svo þú mátt ekki vera fótfúinn eða í hjólastól,“ fékk blaðamaður sem varnaðarorð fyrir heimsóknina og komst stórslysalaust upp á fjórðu hæð.

Sonur Maríu var Eyþór Már Hilmarsson, sem búsettur var í Svíþjóð um 20 ára skeið og féll frá í haust, tæplega fimmtugur að aldri. Hann lætur eftir sig sænska eiginkonu og þrjár dætur, eina úr fyrra sambandi. „Það hvarflaði ekki að mér að hann færi að deyja svona ungur,“ rifjar María Anna upp, en barnsfaðir hennar, Hilmar Sigurbjartsson, faðir Eyþórs, lést í Ósló í Noregi í júlí í kjölfar hjartaáfalls svo þar er skammt stórra högga á milli.

„Mamma mín, fyrirgefðu að ég skuli leggja þetta á þig. Bólgan í kjálkanum er ekki tannkýli eins og ég hélt, heldur æxli, erfitt æxli, sjaldgæft æxli,“ skrifaði María Anna í minningargrein um son sinn, sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardegi hans, 1. október. Hún eignaðist Eyþór ung, aðeins 17 ára gömul, og rifjar í greininni upp basl námsáranna svo ljóslifandi verður:

„Besti tími okkar mæðgina var þegar við bjuggum tvö á Hjónagörðum stúdenta og ég var í bókmenntanámi. Ég var sparsöm einstæð móðir á þessum árum og þá var hollur matur ódýrastur. Eyþór fékk því alltaf hafragraut í hádeginu og að sjálfsögðu fylgdi með sagan af Stúfi sem tók ýmsum breytingum hjá mér í munnlegri geymd. Hann fór með mér í Háskólabíó á mánudagsmyndirnar kl. 5 en var þá frítt í bíó fyrir stúdenta eða í Alþýðuleikhúsið á menntandi leiksýningar fyrir börn.“

Samningar við almættið

Eðlilega voru tíðindin af veikindum sonarins sláandi, þótt Eyþór sjálfur tæki þeim með miklu jafnaðargeði. „En mamma, hví skyldi ég ekki veikjast eins og hver annar?“ spurði hann móður sína. „Ég hef átt gott líf, heilbrigð börn, yndislega konu, góða fjölskyldu og vini.“ Við þessu átti móðir hans engin svör, eins og hún tíundaði í minningargreininni.

Hilmar og María Anna ásamt dætrum Eyþórs heitins sem frá …
Hilmar og María Anna ásamt dætrum Eyþórs heitins sem frá vinstri heita Freja, Astrid Sóley og Alva Sigurbjörg. Ljósmynd/Aðsend

„Ég gerði samning við Maríu mey og Jesú um að ég skyldi hætta að reykja ef þau hjálpuðu Eyþóri til heilsu, en það var náttúrulega svikið,“ segir María Anna og hlær við, en hún steig skrefið engu að síður, drap í tóbakinu og tók til við nikótíntyggjóið, sem margir hafa gert að haldreipi sínu í baráttunni við rettuna.

Hún rifjar upp erfiða krabbameinsmeðferð sonarins mánuðina eftir áfallið, sem fylgdi fréttunum af veikindum hans. „Hann segir mér strax í mars að þetta sé líklega ekki læknanlegt, að það sé ekki hægt að skera þetta í burtu, og ég bara neitaði að horfast í augu við það. En hann og konan hans vissu alveg að þetta yrði ekki læknað, enginn bjóst hins vegar við að þetta gerðist svona hratt, maður hélt að hann ætti kannski tvö ár, eða fimm ár eftir eða eitthvað, en svo gerðist þetta svona brátt. Hann er á fótum daginn áður en hann deyr,“ segir María Anna frá.

Til að bæta gráu ofan á svart lést svo faðir Eyþórs í Noregi um mitt sumar, hafði þá verið á leiðinni að heimsækja son sinn til Svíþjóðar, en þar voru öll sund lokuð vegna heimsfaraldursins og landamæri nágrannaríkjanna skandinavísku lokuð mánuðum saman. Eyþóri auðnaðist hins vegar að komast til Noregs á elleftu stundu og vera við dánarbeð föður síns.

„Já, þau ná að kveðja hann, þau komast til Noregs og á sjúkrahúsið, hann var reyndar meðvitundarlaus en það skiptir engu að síður rosalega miklu máli að vera hjá þeim sem deyr þegar hann deyr,“ segir María Anna. Mikið umstang hafi svo fylgt því að ganga frá eigum Hilmars, sem bjó einn auk þess að skipuleggja athöfn á Íslandi þar sem duftker hans var sett niður í september. Krabbamein Eyþórs hafði hins vegar yfirhöndina í baráttunni áður en að athöfninni kom, en áður hafði bróðir hans flutt kerið með sér frá Noregi til Svíþjóðar svo Eyþóri auðnaðist að eiga stund með því.

„Þið verðið bara að koma núna“

Segir María Anna frá því að fjölskyldan hafi verið á leið til Svíþjóðar að heimsækja Eyþór þegar honum hafi þyngt mjög skyndilega. Kona hans, Louise Helena Granström, hafi hringt og látið vita af þróun mála. „Þið verðið bara að koma núna,“ rifjar María Anna upp að hún hafi sagt við fjölskylduna, sem átti sér einskis ills von og hafði ráðgert að dveljast um nokkurra daga skeið í Svíþjóð.

Eyþór fær fisk frá Íslandi en það þekkja Íslendingar með …
Eyþór fær fisk frá Íslandi en það þekkja Íslendingar með búsetu erlendis mætavel að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur þegar kemur að ýmsum matvælum fósturjarðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Við ætluðum að bíða eftir Katrínu, hún var að koma frá Þýskalandi,“ segir María Anna, en dóttir hennar er Katrín Edda Þorsteinsdóttir, vélaverkfræðingur, áhrifavaldur og krossfittkempa. Önnur systkini Eyþórs eru þeir Jón Unnar Hilmarsson, húðflúrlistamaður á Spáni, og Atli Viðar Þorsteinsson, sem starfar við tölvuleikjagerð hjá CCP auk þess að vera í hjáverkum plötusnúðurinn Atli Kanill.

„Við urðum bara að taka leigubíl strax og við komum til Svíþjóðar, ætluðum að taka bílaleigubíl en enginn tími var til þess og þetta er bara það versta sem ég hef upplifað á ævinni,“ segir María Anna með áhersluþunga, „leigubílstjórinn keyrði eins hratt og hann gat, þetta var einhver einn og hálfur tími og ég bað bara til guðs um að Eyþór yrði á lífi þegar við kæmum,“ rifjar hún upp af örvæntingarfullri för frá flugvellinum á sjúkrahúsið.

Eyþór var á lífi þegar þau komu á staðinn, en ekki með meðvitund. „Ég held að hann hafi samt heyrt í okkur,“ segir móðir hans vongóð, „hann var bara með svo mikið morfín í sér. Ég rifjaði upp sögurnar sem ég las fyrir hann lítinn, sérstaklega um bræðurna Ljónshjarta og Nangiala. Ég minnti hann líka á pabba hans og ömmu og alla þá sem eru farnir og tækju á móti honum hinum megin. Hann var, sem barn, mikið eftirlæti gamla fólksins í fjölskyldunni. Svo skyndilega breyttist andardrátturinn og hann gaf frá sér síðasta andvarpið,“ heldur hún áfram um seinustu augnablik sonar síns, sem til allra heilla náðist þó að kveðja þótt tæpt stæði.

Í Svíþjóð starfaði Eyþór lengst af sem stuðningsfulltrúi með ungu fólki, sem ratað hafði á refilstigu í lífinu, en var auk þess mikill áhugamaður um félagsvísindi, einkum stjórnmálafræði, og skrifaði gjarnan greinar af þeim vettvangi í sænsk dagblöð þar sem hann naut aðstoðar Ölvu dóttur sinnar við sænsku stafsetninguna.

Fór samt í prófið

Við tökum upp léttara hjal þegar hér er komið sögu, enda margt annað en sorg, sem knúið hefur dyra hjá Maríu Önnu um hennar daga. Hún býr til dæmis yfir umfangsmikilli reynslu af fjölmiðlastörfum svo eitthvað sé nefnt, en byrjum á stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1974. „Það var svo gaman í íslensku í Hamrahlíðinni að ég ákvað að fara í íslensku í háskólanum,“ rifjar María Anna upp af áttunda áratugnum.

Sextugsafmæli Maríu Önnu 1. nóvember 2014, Eyþór uppáklæddur sem Napóleon …
Sextugsafmæli Maríu Önnu 1. nóvember 2014, Eyþór uppáklæddur sem Napóleon Bónaparte en dætur hans í gervi hljómsveitarinnar ABBA eins og þær eiga þjóðerni til að hluta. Ljósmynd/Aðsend

„Ég varð stúdent síðasta árið sem bekkjakerfið var í Hamrahlíðinni og fer svo í háskólann í gamla kerfið þar, fyrsta, annað og þriðja stig og auk þess þurfti að taka forpróf í latínu. Og þegar ég fór í latínuprófið var Gunnlaugur Ástgeirsson, síðar íslenskukennari í Hamrahlíðinni, í stúdentaráði og barðist fyrir því með kjafti og klóm að latínuprófið yrði fellt niður, hann átti ekki að fá að útskrifast nema taka latínuna en þverneitaði því og daginn áður en við áttum að fara í prófið fékk hann þessu framgengt, að það yrði ekki skylda að fara í latínu til að útskrifast úr íslenskunni svo það var búið að fella það niður þegar ég fór í prófið, en ég fór nú samt í það,“ segir María Anna og hlær að gamalli minningu.

Kolbeinn Sæmundsson kenndi á þessum tíma latínu í háskólanum og einhverjum tökum virðist tungan forna hafa náð á Maríu Önnu, sem síðar lagði stund á latínu og grísku í endurmenntun, „en það var án málfræði,“ segir hún og blaðamaður hváir, minnugur eigin latínutíma hjá Þorbjörgu Kristinsdóttur í Menntaskólanum í Reykjavík fyrir margt löngu þar sem málfræðin kom fyrst og orðaforði á eftir. „Já, þá þurftum við ekki að læra allar beygingarnar heldur bara hvað orðin þýddu. Kennarinn var ægilega skemmtilegur, ég er búin að gleyma hvað hann heitir, en hann tengdi latínuna og grískuna við önnur tungumál, sjötíu prósent af orðaforða enskunnar eru til dæmis úr latínu og grísku,“ segir María Anna og játar að auk málaáhugans hafi jarðfræðin heillað hana ákaflega.

„Við erum nú bara úr Hlíðunum“

„Mamma var hótelstjóri á Edduhótelinu á Laugarvatni og þangað komu Sigurður Þórarinsson og Þorleifur Einarsson árlega með stúdenta frá Norðurlöndunum á ferð sinni um landið og fékk ég að fara með í eina slíka ferð. Sigurður hafði kennt mömmu í MR og þegar Hekla fór að gjósa 1947 rak hann alla stúdentana út og upp að Heklu að raka ösku. Ég vissi að hann væri manna skemmtilegastur og langaði rosalega mikið að læra hjá honum jarðfræði. Ég vissi að hann færi að hætta að kenna, en Vésteinn Ólason [bókmenntafræðingur og prófessor] sagði mér að ég gæti tekið eitt stig í jarðfræði og haft það inni í BA-prófi í íslenskunni og ég gerði það og þetta var mjög skemmtilegt, gaman að kynnast Sigurði og Þorleifi, þeir voru svo margfróðir,“ segir María Anna frá og lumar á skemmtilegri sögu úr íslenskunáminu.

María Anna Þorsteinsdóttir er frásagnamanneskja mikil og góð og auðvelt …
María Anna Þorsteinsdóttir er frásagnamanneskja mikil og góð og auðvelt að gleyma sér í stofunni í Stigahlíðinni við sögur af lífinu í Háskóla Íslands á áttunda áratug síðustu aldar...og mörgu fleiru. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Já, maður upplifði nú dálitla stéttaskiptingu,“ segir hún með aðkenningu að brosi. „Þannig var að allir voru úr sveit nema ég og einn bekkjarbróðir minn og þetta fólk kom allt frá einhverjum sögustöðum, annaðhvort landnámsbæjum eða áttu ættir að rekja á einhvern bæ þar sem Grettir Ásmundarson hafði verið og ég veit ekki hvað. Svo vorum við bekkjarbróðirinn að kynna okkur og sögðum „ja, við erum nú bara hérna úr Hlíðunum,“ og það þótti nú ekki merkilegt,“ segir María Anna og hlær.

„En þetta var mjög skemmtilegt, við héldum hópinn, þetta var eins konar bekkur og mikið partýstand og á þessum tíma mættu kennararnir alltaf í partýin og það voru þessar rannsóknaræfingar líka og svo var stofnuð hljómsveit í bekknum, Wulfilas Orkestra [eftir Wulfila biskupi sem þýddi biblíuna á gotnesku], í henni voru til dæmis blindu bræðurnir úr Vestmannaeyjum, Gísli og Arnþór [Helgasynir], og Sigurður Valgeirsson, síðar bókaútgefandi, spilaði á trommur,“ rifjar hún upp af félagslífinu í Háskóla Íslands á áttunda áratug síðustu aldar.

Börðumst í gotnesku og fornnorrænu

Nafn hljómsveitarinnar tengdist íslenskunáminu órofa böndum þar sem gotneska var þar skyldufag. „Hún var aðalsían á hópinn, þeir sem náðu ekki gotneskunni komust ekkert áfram svo við urðum býsna glúrin í gotnesku og samanburðarmálfræði, en á þessum tíma var ekkert kennt um íslenska málnotkun. Ég man svo vel eftir því að Ásgeir Tómasson, síðar fréttamaður á RÚV, hann byrjaði í íslenskunni '75 og hætti fljótlega. „Ég er kominn hérna til að læra rétt íslenskt mál,“ sagði hann og þá vorum við þarna að berjast í gotnesku og fornnorrænu með kennslubækur á þýsku og norsku og aldrei minnst einu orði á rétt eða rangt íslenskt mál eða eitthvað svoleiðis,“ segir María Anna og hlær dátt, „menn áttu bara að kunna það.“

„Eigi er hér vönd vistargjörð,“ sagði Þorgils Arason á Reykjahólum …
„Eigi er hér vönd vistargjörð,“ sagði Þorgils Arason á Reykjahólum við Gretti Ásmundarson gestkomandi og hefði sannarlega mátt heimfæra á móttökurnar sem blaðamaður fékk á heimili Maríu Önnu þar sem enginn hörgull var á bakkelsinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Svo fóru leikar að María Anna lauk MA-prófi í íslensku og var lokaritgerð hennar, Tveggja heima sýn – Saga Ólafs Þórhallasonar og þjóðsögurnar, gefin út á bók sem 53. hefti Studia Islandica. „Ætli ég hafi ekki verið sjö ár að skrifa hana, með tvöfaldri vinnu og barneignum,“ rifjar María Anna upp, en það var einmitt á námsárunum sem leið hennar lá inn á ritstjórn hins fornfræga málgagns framsóknarmanna, Tímans, þar sem hún átti eftir að ílengjast.

„Mig vantaði sumarvinnu og sá auglýsingu í Tímanum um að þar vantaði prófarkalesara. Ég fer og sæki um og þarna var Jón Sigurðsson ritstjóri, sem fór svo á Bifröst. „Já, ertu í íslensku?“ spurði hann og ég svaraði því játandi. „Fínt, þá máttu bara byrja á morgun,“ og ég var svo óframfærin að ég spurði ekki um laun eða vinnutíma eða neitt. „Talaðu bara við hann Flosa, sem þú átt að leysa af,“ sagði Jón og það var Flosi Kristjánsson, sem var að fara í hvalskurð þá um sumarið, hann var prófarkalesari þarna og kenndi líka við Hagaskóla,“ segir María Anna af upphafi starfa sinna á blaðinu. Sumar reglurnar hafi þó ekki verið ýkjaflóknar.

„Annars verða þeir brjálaðir“

„Þjóðviljinn skrifar milljón með einu elli, mundu það, en Tíminn og Vísir skrifa með tveimur ellum. Verslunarskólinn er með zetu, mundu það líka, annars segja þeir upp blaðinu, og svo er það BifreiðIR og landbúnaðarvélar, ekki bifreiðar, annars borga þeir ekki auglýsinguna,“ rifjar hún upp af lífsreglunum í prófarkalestrinum, sem ekki tengdust endilega hinum fínþráðóttari vefjum málfræðinnar. Eins hafi þurft að gæta vel að því að réttar forsetningar, í eða á, fylgdu sveitarfélögum á landsbyggðinni, „annars verða þeir brjálaðir, var mér sagt. Svo var ég svo heppin að Árni Böðvarsson, málfarsráðunautur ríkisútvarpsins, gaf út blaðið Tungutak og hann bauð mér og fleiri prófarkalesurum á fund með það fyrir augum að samræma stafsetningu á miðlunum, tók bara af skarið,“ rifjar gamli prófarkalesarinn upp.

MA-ritgerð Maríu Önnu í íslensku, sem hún skrifaði á sjö …
MA-ritgerð Maríu Önnu í íslensku, sem hún skrifaði á sjö árum samhliða vinnu, námi og barnauppeldi, var gefin út sem 53. hefti Studia Islandica. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

María Anna kveður álagið á Tímanum hafa verið töluvert, hún hafi alltaf verið á kvöldvakt og blaðið þurfti að vera frágengið í prentun á miðnætti, en á þessum tíma prentaði Blaðaprent hf. Alþýðublaðið, Tímann og Þjóðviljann og deildi þá sumt starfsfólkið húsnæði við Síðumúlann. „Væri maður í vafa um orðalag eða málfar gat maður spurt Elías Mar, prófarkalesara á Þjóðviljanum, og við Sverrir Diego, prófarkalesari á Vísi, sátum við sama borð, en annars vann ég mest með prenturunum og setjurunum. Svo var Blaðaprenti skipt upp og við fluttum yfir götuna og þá var ég bara ein,“ segir María Anna og kveður álagið og keyrsluna hafa verið slíkt, að hún hafði varla tíma til að fletta vafamálum upp í orðabókum.

Kynntist þar skítadreifurum

Getur hún þó ekki neitað því að minningarnar frá Tímanum eru ekki hennar verstu. „Mér fannst þetta nú bara dálítið gaman, að lesa þarna um alls konar haugsugur, hvernig sláturtíðin gengi, grasspretta og sláttur, allar auglýsingarnar í blaðinu voru auðvitað frá Sambandinu og maður kynntist þar skítadreifurum og fleiri tækjum sem ég vissi engin deili á,“ rifjar María Anna upp og bætir því við að framangreint hafi verið mun umfangsmeira í blaðinu en stjórnmálaviðhorfin. „Það var eiginlega engin pólitík, hún var bara í leiðaranum, fréttamennirnir voru allt ungir strákar, svona 20 til 30 ára, sem voru alltaf að skúbba, en maður fann samt voðalega lítið fyrir einhverri samkeppni, aðalsamkeppnin var milli Vísis og Dagblaðsins, sem svo sameinuðust, það var til dæmis ekkert svoleiðis milli Þjóðviljans og Tímans. Þetta var svo einfalt í þá daga, maður vissi alveg hvaða flokkur átti hvaða blað og þar með hver efnistökin væru. Núna veit maður ekkert hver á þessi blöð,“ segir María Anna og hlær áður en hún heldur áfram og gefur stutt yfirlit yfir eilítinn hluta af eftirminnilegu samstarfsfólki:

„Það var gríðarlegt streymi blaðamanna á Tímanum á þessum árum og má segja að næstum allar fjölmiðlastjörnur landsins hafi byrjað sinn feril þar. Nefna má Agnesi Bragadóttur, Illuga Jökuls, Egil Helga, Gunnar Smára, Jón Ársæl Þórðarson og fjölda annarra. Ritstjórarnir voru góðir kennarar, til dæmis Indriði G. Þorsteinsson og Elías Snæland.

„Við vorum mjög mikið óléttar þarna“

Mér fannst þetta alveg ofboðslega gaman, þetta er skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef verið á,“ heldur hún áfram og kveður samstarfsfólkið auðvitað hafa átt þar stærstan hlut að máli, einkum vinkvennahóp, sem enn í dag hittist nokkrum sinnum á ári og kallar sig Tímaskvísurnar. „Við vorum allar á sama aldri, við vorum allar að byrja að kynnast kærastanum, allar að eignast börn og byrja að halda heimili. Ráðguðumst til dæmis mikið um matargerð, mesta martröðin var að gleyma sósunni á aðfangadagskvöld,“ rifjar María Anna upp. „Hún Guðný Kristjáns, prentsmiður og setjari [móðir núverandi menntamálaráðherra], hún var svo flink í höndunum, alltaf að sauma á stelpurnar og prjóna, þær voru alltaf að prjóna í hádeginu setjararnir og þarna lærði maður að sauma og prjóna að ógleymdri eldamennskunni.

María Anna er frændrækin með afbrigðum og þekja myndir af …
María Anna er frændrækin með afbrigðum og þekja myndir af vandamönnum veggi vistlegrar íbúðar hennar í Hlíðunum. Kom enda upp úr kafinu að María Anna og sá er hér skrifar reyndust vera þremenningar án þess að hafa um það grænan grun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ég er enn þá með einn rétt sem heitir fiskréttur Kristínar Þorbjarnardóttur, hún var prófarkalesari á móti mér, á dagvakt, mun eldri en við hinar og reynslumeiri og fræddi okkur um allt mögulegt, til dæmis gerð eplasalats. Þarna var aldrei neitt verið að slúðra um náungann heldur meira rætt um matargerð, bleyjuskipti og barneignir, við vorum mjög mikið óléttar þarna,“ segir María Anna og getur ekki varist hlátri.

Tímabært er að slá botninn í spjall, sem sannarlega hefur náð endanna á milli í margslungnu litrófi gleði og sorgar, blaðamaður stríðalinn á ljúffengu bakkelsi húsráðanda og hefði ef til vill þótt meiri áskorun að komast upp á fjórðu hæðina til Maríu Önnu eftir viðtalið en fyrir það. Við kveðjumst með virktum, enda nýkomið í ljós að við erum náskyld. Hvar annars staðar en á Íslandi hittir maður viðmælendur sem svo reynast frænkur manns?

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert