Nói-Síríus, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur stöðvað sölu og innkallað frá neytendum Nóa-konfekt: Konfekt í lausu 560 g (með best fyrir-dagsetningu 4.8. 2022) og konfektkassa 630 g (með best fyrir-dagsetningu 29.7. 2022).
Ástæða innköllunar er að við gæðaeftirlit Nóa-Síríusar kom í ljós að málmagnir frá skammtara hafa hugsanlega smitast í fyllingar í konfektmolum sem gerir konfektið ekki öruggt til neyslu.
Neytendum sem hafa keypt matvælin er bent á að neyta þeirra ekki og farga eða skila þeim til Nóa-Síríusar.
Um dreifingu sjá Krónan, Samkaup (Nettó, Kjörbúðin Skagaströnd, Iceland) og Húsasmiðjan Skútuvogi.
Samkvæmt upplýsingunum frá Nóa-Síríusi var aðeins um nýjustu framleiðslu að ræða og aðeins fáir kassar sem höfðu farið úr húsi og fóru sölumenn og sóttu þá flesta í verslanir. Aðeins um 20 kassar hafi verið seldir.