Talsverður hluti einstaklinga sem eru á leigumarkaðinum borga yfir 70% af ráðstöfunartekjum sínum mánaðarlega í leigu. Ætla má samkvæmt svörum í nýrri skýrslu um niðurstöður könnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), að þetta eigi við um nálægt tíu prósent þeirra sem búa í leiguhúsnæði. Ef á heildina er litið greiða leigjendur á leigumarkaðinum að meðaltali um 45% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og hefur það hlutfall hækkað á seinustu tveimur árum.
HMS hefur unnið ítarlegar niðurstöður árlegrar mælingar á stöðu leigjenda sem byggð er á spurningakönnun meðal þeirra. Þar eru leigjendur m.a. spurðir hvort þeir séu sammála eða ósammála því að þeir búi við húsnæðisöryggi. Svörin benda til að húsnæðisóöryggi sé að þokast upp á við en hlutfall þeirra sem eru mjög og frekar ósammála þessari fullyrðingu um húsnæðisöryggið hækkaði úr 16,1% í fyrra í 18,9% á þessu ári.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar virðist hafa haft töluverð áhrif á búsetu fólks en tilfærslur á búsetu fólks eru ólíkar á milli aldurshópa. Nú búa fleiri í eigin húsnæði (73,1%) en gerðu það fyrir faraldurinn (70,8%). Lægra hlutfall er á leigumarkaði en það fór úr 16,6% fyrir faraldurinn í 13% í vor og fleiri búa nú í foreldrahúsum eða 11,2% samanborið við 9,7% fyrir faraldurinn.
„Yngsti hópurinn, 18-24 ára, hefur fært sig að miklu leyti aftur í foreldrahús en meðaltal á hlutfalli þeirra í foreldrahúsum er rúmlega 16 prósentustigum hærra í mælingum yfir eitt ár eftir COVID-19 faraldurinn samanborið við meðaltal mælinga yfir eitt ár fyrir COVID-19 faraldurinn. Með sama hætti má sjá að aldurshópurinn 25-34 ára hefur hins vegar verið að færa sig af leigumarkaði og að einhverju leyti úr foreldrahúsum og yfir í eigið
húsnæði. Hlutfall þess hóps í eigin húsnæði mælist 8,1 prósentustigi hærra að meðaltali yfir heilt ár eftir COVID-19 samanborið við heilt ár fyrir faraldurinn. Mest hefur tilfærsla þess hóps verið af leigumarkaði og mælist hlutfall hópsins á leigumarkaði rúmlega 5 prósentustigum lægra eftir COVID-19,“ segir í skýrslu HMS um niðurstöðurnar.
Yfirgnæfandi meirihluti leigjenda segjast ánægður með húsnæði sitt og 83% segjast vera ánægð með leigusalann sinn. Hins vegar virðast nú fleiri en áður telja erfiðara að verða sér úti um húsnæði á þessu ári en í fyrra en um 36% segja það vera frekar eða mjög erfitt. Hlutfall þeirra sem segja erfitt að verða sé úti um húsnæði var þó langtum stærra árið 2015 þegar um 55% sögðu það vera erfitt.
„Vægi Facebook sem vettvangs í leit að leiguhúsnæði hefur aukist á síðustu þremur árum og eykst töluvert á milli ára. Svipað hátt hlutfall leigjenda útvegaði sér leiguhúsnæði í gegnum vini og kunningja og eykst það einnig á milli ára,“ segir í greiningu á niðurstöðunum og þar kemur enn fremur fram að einungis 1,3% og 1,7% leigjenda á höfuðborgarsvæðinu leigja einbýlishús og raðhús eða parhús. Það gera þó mun fleiri utan höfuðborgarsvæðisins eða 13% og 8,2% leigjenda.
66,3% leigjenda segjast leigja af nauðsyn og hefur það hlutfall hækkað á seinustu árum. 9,4% segjast vilja vera á leigumarkaði.
Spurðir hvort þeir vildu frekar búa í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði ef nægjanlegt framboð væri á öruggu leiguhúsnæði og húsnæði til kaups svöruðu 88% að þeir myndu frekar velja eigin húsnæði en 12% sögðu leiguhúsnæði.