ASÍ hafi tapað trúverðugleika sínum

Sólveig birtir afrit af bréfi sínu til Magnúsar á facebook.
Sólveig birtir afrit af bréfi sínu til Magnúsar á facebook. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, telur að Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ), hafi gert sambandið vanhæft til aðkomu að málum sem snerta kynbundið ofbeldi og áreiti. Þetta kemur fram í facebook-færslu sem Sólveig birti fyrir stundu, en er þar um að ræða afrit af bréfi hennar til Magnúsar. Vísar Sólveig til athugasemdar sem Magnús ritaði við facebook-færslu Tryggva Marteinssonar í gærkvöldi, þar sem hann tilkynnti að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Eflingu eftir 27 ár í starfi.

Sólveig hefur áður greint frá því að starfsmaður Eflingar hafi hótað henni ofbeldi, en í færslunni kemur fram að umræddur starfsmaður sé Tryggvi.

„Umræddur starfsmaður er sá sem hótaði mér ofbeldisverkum á heimili mínu. Hótuninni fylgdi nákvæm útlistun á því hvernig hann hefði áður gert hótanir gegn meintum óvinum sínum að veruleika og útskýringar á því hvers vegna hann teldi að hann myndi aðeins hljóta skilorðsbundinn dóm yrði hann dæmdur vegna þess sem hann hugðist gera mér.“ Sólveig greinir jafnframt frá því að hún hafi tilkynnt lögreglu um hótanirnar.

Magnús skrifaði við færslu Tryggva að fréttir af uppsögn hans væru ömurlegar. „Á löngum ferli mínum í störfum fyrir þetta stóra stéttarfélag hefur við mig aldrei orði verið á þig hallað – þvert á móti.“

Athugasemdin frá Magnúsi. Tryggvi lýsir jafnframt yfir þakklæti.
Athugasemdin frá Magnúsi. Tryggvi lýsir jafnframt yfir þakklæti. Ljósmynd/Skjáskot facebook

Magnús hafi lýst yfir stuðningi við geranda

Í bréfinu til Magnúsar segir hún ASÍ hafa tapað trúverðuleika sínum. „Stofnun sem felur karli með þín viðhorf og hugmyndir um hvað telst ásættanleg opinber framganga í slíkum málum stöðu æðsta lögfræðivalds hefur tapað trúverðugleika sínum. Enginn þolandi í kynbundnu ofbeldis- eða áreitnismáli getur treyst því að mál þeirra fái faglega eða hlutlausa meðferð af hálfu ASÍ meðan þú gegnir þar þeirri stöðu sem þú gerir.“

Sólveig segir Magnús hafa með orðum sínum lýst stuðningi og samúð við geranda í ofbeldismáli frammi fyrir almenningi. Um leið kasti hann rýrð á frásögn hennar sem þolanda hótunar af hálfu Tryggva. Þetta geri hann þrátt fyrir að hann hljóti að vera upplýstur um inntak þess sem hún hefur greint frá um málið.



Magnús M. Norðdahl er lögfræðingur ASÍ.
Magnús M. Norðdahl er lögfræðingur ASÍ. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert