Bólusetningarátak með örvunarskammt af bóluefni gegn Covid-19 hefst í Laugardalshöll á mánudaginn fyrir þá sem eru 60 ára og eldri og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við mbl.is miðað við ástandið í samfélaginu núna eigi hún von á mikilli þátttöku.
Öllum landsmönnum 16 ára og eldri býðst að fá örvunarskammt, en miðað verður við að a.m.k. sex mánuðir séu liðnir frá seinni skammti grunnbólusetningar. Næstu fjórar vikur verður bólusett á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum milli klukkan 10 og 15, en byrjað er að boða þá sem eiga að mæta á mánudaginn.
Ragnheiður segir að 10 þúsund manns verði boðaðir hvern dag, en miðað við 80% mætingu megi því gera ráð fyrir um 8 þúsund á hverjum degi. „Það verður vonandi góð mæting, en við erum að renna blint í sjóinn með þennan þriðja skammt,“ segir hún og bætir við: „Ástandið í samfélaginu gefur til kynna að ég held að fólk taki vel við sér og komi til okkar.“
Í dag var tilkynnt um hertar samkomutakmarkanir og verður miðað við 50 manns í rými og 500 manns ef fólk fer í hraðapróf. Ragnheiður segir að þessar breytingar muni þó ekki hafa áhrif á bólusetninguna. Heilbrigðisþjónusta sé undanskilin þessum takmörkunum og að ekki verði þörf á að allir mæti fyrst í hraðpróf. Þá segir hún að sérstaklega verði reynt að passa upp á gott bil milli fólks, að fólk sitji í sömu átt og grímuskyldu. „Við leggjum mikla áherslu á grímur,“ ítrekar hún.
Í örvunarbólusetningunum verður notast við mRNA bóluefnin frá Pfizer og Moderna, en fyrst um sinn verður notast við Pfizer. Segir Ragnheiður að það sé gert þar sem mikið sé til af bóluefninu, en á heildina litið segir hún að birgðastaðan sé nokkuð góð. Bóluefni fyrir þá 160 þúsund sem horft sé til að bólusetja fyrir áramót eigi að vera til í landinu.
Í þessari bólusetningarlotu er gert ráð fyrir að ná fólki 60 ára og eldra. Spurð hvort fólk undir þeim aldri gæti einnig verið boðað segir Ragnheiður að það fari eftir mætingu og að mögulegt sé að fólk eitthvað yngra verði boðað þegar líði á. Það muni þó allt koma í ljós.
Starfsfólk heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu mun sinna bólusetningu í Laugardalshöll. Ragnheiður segir að þar sem bólusetningarnar muni draga þetta starfsfólk úr hefðbundnum verkefnum á stöðvunum sjálfum óski hún þess að fólk sýni því skilning að þjónustustig heilsugæslustöðvanna muni dragast saman. Hún tekur þó fram að áfram vilji heilsugæslan auðvitað að veikt fólk leiti sér aðstoðar, en að fólk sem sé t.d. að leita upplýsinga um bólusetningar o.fl. leiti sér fyrst upplýsinga á vefsíðu heilsugæslunnar.