„Þetta eru 1.400 tonn af árlegri losun á koltvíoxíð sem við erum að stöðva og það er jafn mikið og 700 fólksbílar losa á einu ári, til þess að fólk átti sig á magninu,“ segir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, sem stendur fyrir því að endurheima framræstar mýrar til að kolefnisjafna útblástur Íslands.
Í gærmorgun var hafist handa við að ræsta mýrar á jörðinni Brúarlandi á Mýrum í Borgarfirði. Jú er jörð er í eigu fjölskyldu Guðmundar Inga Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Einar segir að verkefnið sé í raun annað verkefni Votlendissjóðs í þessum mánuði en á sama tíma sé verið að vinna í stóru endurheimtarverkefni vestur á landi í Fífustaðadölum.
„Þar er rífandi gangur og fín tíð núna til að gera þetta þar sem það er létt frostartíð, það hlífir jarðveginum meira heldur en annars þannig þetta sé mjög fínn tími til að atast í mýrunum.“
Einar segir að sérstakur fókus hafi verið á mýrarnar og votlendið á COP26 loftslagsráðstefnunni sem fer fram um þessar mundir í Glasgow.
„Það er ekki bara stöðvun á losun sem fer þarna fram heldur erum við líka að endurheimta vistkerfi, efla náttúrulegan fjölbreytileika og skapa atvinnu á þessum svæðum.“
Að sögn Einars hefur fjölskylda Guðmundar stundað umhverfsivænan landbúnað á jörðinni í mörg ár. Þau hafi haft samband við Votlendissjóð fyrir tveimur árum og sýnt áhuga á að koma inn í verkefnið.
„Ég veit að ráðherrann er mjög stoltur af þessu og ég sendi honum myndir frá vettvangi í dag, þar sem hann er á COP26 ráðstefnunni. Ég vona að hann sé að sýna sem flestum öðrum umhverfisráðherrum hvað hann og hans fjölskylda ganga vasklega í baráttunni við loftslagsbreytingarnar,“ segir Einar.
„Hann er ekkert bara gjammandi á einhverri ráðstefnu heldur er fjölskyldan á fullu að taka til hendinni!“
Einar segir landeigendur geta nýtt kolefniseiningar til að kolefnisjafna búrekstur.
„Við gerum þannig samning við landeigendur að við framkvæmum þetta allt saman og undirbúum og tökum kostnaðinn af því, en við leigjum kolefniseiningarnar sem við framleiðum úr verkefnunum og seljum í ákveðinn tíma, sem eru átta ár, til þess að fjármagna framkvæmdirnar. Svo eignast landeigendurnir þessar kolefniseiningar,“ segir Einar.
Hann segir því landeigendurna sem taka þátt í verkefninu geta annaðhvort nýtt kolefniseiningarnar til þess að kolefnisjafna sin búrekstur eða komið þeim með öðrum leiðum á markað.