Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist horfa til þess að smitfjöldi lækki niður í allavega 40 til 50 smit á dag áður en ráðist verður aftur í afléttingar. Hún segir það ekki hafa verið mistök að ráðast í afléttingarnar í haust en að erfitt sé að setja fram framtíðarsýn þar sem aðgerðir þurfa að miðast við þær aðstæður sem eru í samfélaginu að hverju sinni.
Ný reglugerð um hertari sóttvarnaaðgerðir var kynnt fyrr í dag og mun hún taka gildi á miðnætti. Mega nú einungis 50 safnast saman í stað 500 og hefur opnunartími veitingahúsa og skemmtistaða verið styttur um eina klukkustund, lokar því klukkan 22. Auk þess má fjöldi gesta á sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum ekki fara yfir 75% af heimiluðum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi.
Spurð hvort að það hefði verið mistök að ráðast í afléttingarnar í haust, segir Svandís ekki svo vera.
„Nei við eigum að aflétta. Við eigum að hafa það sem meginreglu í öllum okkar aðgerðum að aflétta eins hratt og vel og við getum. Við eigum ekki að venjast því að vera með takmarkandi aðgerðir á samfélaginu bara til öryggis. Við eigum að aflétta um leið og tilefni gefst til og við höfum gert það, það var ansi brött aflétting hjá okkur í júllí og eftir á að hyggja þá hefði verið skynsamlegra að vera það hægar en ég held að ákvörðunina verði bara að skoða í ljósi stöðunnar eins og hún var þá.“
Spurð hvort að landsmenn ættu von á því að sjá aðgerðir á næstunni sem miðast út frá meiri framtíðarsýn, segir hún að ávallt verði að vera lagagrundvöllur fyrir aðgerðir af þessu tagi.
„Við þurfum að gera rökstutt það með því sem er að gerast í faraldrinum þannig að það verður þannig að við getum ekki verið með einhverjar ráðstafanir um ókomna tíð um einhverja mánuði eða misseri án þess að það séu efnisleg rök fyrir því þannig að þetta verður staðan. En vonandi erum við að sjá núna með þriðju bólusetningunni að við séum að sjá fyrir endann á faraldrinum. Ég vil trúa því.
Landspítali er nú á hættustigi og samkvæmt tölum sem birtust í morgun eru 16 sjúklingar sem að liggja inni vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu. Í þar síðasta minnisblaði sem Þórólfur skilaði inn segir að spítalinn ráði við um 40 til 50 smit á dag.
Spurð hvort að við megum búast við afléttingum þegar daglegur fjöldi smita hefur lækkað niður í þá tölu, segir Svandís það líklegt.
„Já það er markmiðið þegar við erum með þá tölu, 40 til 50 manns, að þá ættum við að geta náð jafnvægi með afkastagetu spítalans.“
Teljið þið að það sé hægt að halda daglegum fjölda smita á bilinu 40 til 50?
„Já það verðum við bara að sjá og á sama tíma erum við bara að ná meira ónæmi í samfélaginu með því að fara í þriðju bólusetninguna. Þannig að það gerist samhliða og það ætti að hjálpa okkur líka við það að geta aflétt.“