Fær engar bætur vegna framkvæmda á Hverfisgötu

Hverfisgata var sundurgrafin sumarið 2019.
Hverfisgata var sundurgrafin sumarið 2019. mbl.is/Hallur Már

Reykjavíkurborg var í gær sýknuð af kröfum Gráa kattarins veitinga ehf. í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna framkvæmda við Hverfisgötu árin 2019 og 2020. Hafði Ásmundur Helgason, eigandi veitingastaðarins, gert athugasemdir við framkvæmdina, útgáfu framkvæmdaleyfisins og þær miklu tafir sem urðu á verkinu. Fór hann fram á að borgin myndi greiða sér 18,5 milljónir í bætur, m.a. vegna tekjutaps.

Mbl.is hefur áður fjallað um framkvæmdirnar og óánægju veitingahúsaeigenda á svæðinu, en ákveðið var að fara í endurbætur á Hverfisgötu í apríl 2019 og hófust framkvæmdirnar í maí sama ár. Upphaflega áttu þær að klárast á fimm mánuðum, eða í september 2019. Verkið reyndist hins vegar umfangsmeira en upphaflega var áætlað, tafir voru á fá efni og þá þurfti að fara í meiri breytingar á veitukerfi og símakerfi sem voru þarna í jörð, en sá hluti var á forræði Veitna og Mílu.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út í lok apríl 2019. Það hafi tekið til jarðvegsskipta og endurnýjunar lagna veitufyrirtækja. Í þessu hafi meðal annars falist að grafa og fylla í götu, gangstétt, hjólastíg og bílastæði og vinnu vegna fráveitu vatnsveitu-, rafveitu, fjarskipta og götulýsingar.

Ásmundur Helgason, veitingamaður á Gráa kettinum við Hverfisgötu.
Ásmundur Helgason, veitingamaður á Gráa kettinum við Hverfisgötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Átti upphaflega að taka fimm mánuði

Íbúum og rekstraraðilum við Hverfisgötu, á milli Ingólfsstrætis og Smiðjustígs, var tilkynnt um framkvæmdina 7. maí og var þar tekið fram að verktíminn ætti að vera fimm mánuðir. Strax þarna gerði Ásmundur athugasemd við framkvæmdina og að hún ætti að vera yfir sumartímann sem jafnan væri sá tími árs sem væri tekjuhæstur fyrir fyrirtækið. Borgin benti hins vegar á að framkvæmdirnar gætu ekki farið fram um vetur.

Verktaki hóf framkvæmdir 20. maí og stóðu framkvæmdirnar í um eitt og hálft ár, eða fram í nóvember 2020.

Í dóminum kemur fram að Ásmundur telji að framkvæmdirnar hafi verið ólögmætar þar sem framkvæmdaleyfið hafi ekki verið gefið út samkvæmt lögum. Þá hafi kynningin verið verið ámælisverð í ljósi umfangs og áhrifa á starfsemi. Einnig gerði hann athugasemdir við eftirlit borgarinnar með framkvæmdunum og sagði það hafa brugðist og valdið meira tjóni en nauðsynlegt var. Fyrirheit um aðgengi hafi einnig að engu orðið.

Vildi fá 18,5 milljónir í bætur

Fór Ásmundur fram á 18,5 milljónir í bætur. Þar af voru 8 milljónir vegna tekjusamdráttar, 3 milljónir vegna launakostnaðar eins starfsmanns í sjö mánuði sem Ásmundur sagði að hafi verið ofaukið vegna tekjusamdráttarins. Einnig var farið fram á 3 milljónir vegna tapaðrar viðskiptavildar, 1,8 milljónir í ómaksþóknun vegna samskipta við borgina og verktaka, 1,2 milljónir í lögmannskostnað og 1,5 milljón í ófyrirséðan kostnað vegna málshöfðunar og tjóns.

Tekið er fram í dóminum að ýmiss atriði séu vanreifuð varðandi bótaskyldu og meint tjón, en samt er ákveðið að vísa málinu ekki frá dómi.

Auk þess sem gatan var endurgerð með m.a. nýrri gangstétt …
Auk þess sem gatan var endurgerð með m.a. nýrri gangstétt og hjólastíg var skipt um lagnir. mbl.is/RAX

Framkvæmdaleyfið byggt á aðalskipulagi

Reykjavíkurborg sagði fyrir dómi að framkvæmdaleyfið væri byggt á aðalskipulagi borgarinnar og að unnið hafi verið út frá því að um borgargötu sé að ræða. „Þar sé áhersla á að bæta umhverfi götunnar, skapa heildstæða götumynd, tryggja skilyrði fyrir fjölbreyttan ferðamáta og opin almenningsrými.“ Þá sé tjón veitingastaðarins ekki sannað.

Dómurinn tekur undir með borginni og hafnar því að framkvæmdaleyfið hafi verið ólögmætt. Þá segir að framkvæmdin hafi verið í samræmi við aðalskipulag og því ekki nauðsyn á grenndarkynningu. Þá hafi einnig verið nauðsynlegt að fara í endurnýjun á lögnum.

Ráðinn var umsjónar- og eftirlitsaðili með framkvæmdinni og sagði viðkomandi fyrir dómi að aðgengi að Gráa kettinum hefði á tímabili verið erfitt, einkum í lok framkvæmdanna. Það hafi meðal annars helgast af því að þær væru flóknar. Aðgengi hafi samt ávallt verið tryggt. Þá kom jafnframt fram að tveggja vikna hlé hefði verið gert á framkvæmdinni í kringum verslunarmannahelgina, en fyrir því væri hefð hjá verktökum.

Framkvæmdir við Hverfisgötu árið 2019.
Framkvæmdir við Hverfisgötu árið 2019. mbl.is/Hallur Már

Nauðsynlegar breytingar og lögmætar skýringar á töfum

Niðurstaða dómsins er jafnframt að tafir á verkinu hafi verið vegna nauðsynlegra breytinga og aukinnar vinnu við fráveitulagnir, sem hefði verið á forræði Veitna og gamalla símstrengja sem hefðu verið á ábyrgð Mílu. Þá hafi verið töf á afhendingu lagnaefnis í hitaveitu og seinkun á tengivinnu hjá Veitum. Þá hafi verið meiri klöpp í verkinu en gert var ráð fyrir, en tími til að fleyga hafi verið takmarkaður.

Segir í dóminum að ekki verði séð að þessa töf sé að „rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.“ Þá hafi verið reynt að koma til móts við óskir hagsmunaaðila á svæðinu, en þær hafi verið mismunandi eftir því hvort um var að ræða Þjóðleikhúsið, hótel, veitingastaði eða verslanir. Þá segir í dóminum að ekki hafi verið færðar haldbærar sannanir fyrir því að eftirlit með framkvæmdinni hafi verið ábótavant eða upplýsingaskyldu ekki sinnt.

Er borgin því sýknuð af bótakröfu Gráa kattarins, en málskostnaður var felldur niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert