Landsréttur hefur staðfest tveggja mánaða dóm yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot með því að hafa sært blygðunarkennd stúlku sem afgreiddi hann á sólbaðsstofu. Eftir ljósatíma hóf hann að fróa sér fyrir utan sólbaðsstofuna.
Maðurinn mætti á sólbaðsstofuna í júlí árið 2019 og fór í ljós. Eftir tímann fór hann fyrir utan stofuna og hóf athæfi sitt þar sem hann stóð fyrir utan glugga sólbaðsstofunar, við hliðina á afgreiðsluborðinu og horfði beint á afgreiðslustúlkuna. Handlék hann kynfæri sín á sama tíma.
Myndbandsupptaka náðist af athæfi mannsins og viðurkenndi maðurinn í héraðsdómi að hafa handfjalað kynfæri sín í umrætt sinn, en gaf þær skýringar að hann hefði verið að klóra sér og við það hafi getnaðarlimur hans farið út úr buxnaklaufinni í skamma stund.
Í héraðsdómi bar maðurinn fyrir sér að hann væri með húðsjúkdóm sem hann héldi í skefjum með reglulegum ljósabekkjatímum. Hann hafi því verið „sveittur og klístraður“ og þess vegna hagrætt pungnum á sér fyrir utan ljósabekkjastofuna. Ætlunin hafi ekki verið að særa blygðunarkennd neins.
Af upptökunum af vettvangi má sjá manninn snerta lim sinn og bera hann og að hann hafi viðhaft sjálfsfróunarhreyfingar fyrir framan gólfsíðan glugga sólbaðsstofunnar.
Stúlkan sagðist fyrst hafa haldið að maðurinn væri að klóra sér, en svo hafi henni orðið ljóst af handahreyfingum hans að hann væri að fróa sér. Svo þegar hann beraði á sér getnaðarliminn hringdi stúlkan á lögregluna.
Fyrir Landsrétti gaf maðurinn þá skýringu að hann hefði á þessum tíma verið í slæmum félagsskap og átt við áfengisvandamál að etja. Nú hefði hann hins vegar snúið lífi sínu til betri vegar og hætt neyslu áfengis.
Taldi Landsréttur ekki ástæðu til að breyta dómi héraðsdóms og var manninum til viðbótar gert að greiða 733 þúsund krónur í áfrýjunarkostnað.