Hefur mikla trú á Íslendingum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að Íslendingar séu að missa móðinn í baráttunni gegn heimsfaraldrinum. Hún segir landsmenn hafa verið ótrúlega skynsama undanfarna 20 mánuði og á hún ekki von á því að það muni breytast.

Ný reglugerð um sóttvarnir var kynnt áðan og mun hún taka gildi strax á miðnætti. Reglugerðin sem kynnt var síðasta föstudag var því ekki langlíf en hún tók að fullu gildi á miðnætti á miðvikudag. Þær ráðstafanir voru þó ekki taldar nógu áhrifaríkar til að takast á við útbreiðslu veirunnar.

„Auðvitað eru það vonbrigði að við séum á þessum stað eftir allan þennan slag undanfarin misseri en svona er bara þessi andstæðingur sem er veiran. Við erum búin að sjá mikla fjölgun þeirra sem hafa smitast og það er mikilvægt að stíga inn með ráðstöfunum.“

Katrín bindur nú miklar vonir við að nýja reglugerðin muni skila árangri og jafnframt að þriðja bólusetningin muni breyta miklu. 

„Við erum að hefja þriðju bólusetninguna og stefnum á það að ríflega 100 þúsund manns fái þriðja skammtinn fyrir áramót. Samkvæmt þeim rannsóknum sem við höfum séð – sem eru auðvitað ekki miklar því fáar þjóðir standa jafn framarlega og við í bólusetningum –þá eru þær að veita varanlegri vörn fyrir þá sem þiggja hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert