Karl Gauti harðorður í bréfi til nefndarinnar

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, gerir alvarlegar athugasemdir við málsatvikalýsingu um framkvæmd endurtalningar í Norðvesturkjördæmi eftir kosningarnar til alþingis í september síðastliðnum. 

Karl Gauti datt út af þingi sem jöfnunarmaður eftir að talið var aftur í Norðvesturkjördæmi á sunnudagsmorgni eftir kjördag.

Málsatvikalýsingin var sett saman af undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar, sem farið hefur í þrjár vettvangsferðir í Borgarnes til þess að púsla saman atburðarásinni sem leiddi til endurtalningarinnar alræmdu, nú síðast í gær.

„Málsatvikalýsing undirbúningskjörbréfanefndar á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi leiðir glögglega í ljós þá fjölmörgu annmarka sem voru á framkvæmd yfirkjörstjórnar eftir að hún gaf út lokatölur að morgni sunnudags 26. september sl.,“ segir Karl Gauti í bréfi sínu til undirbúningsnefndarinnar

Segir augljóst að lög hafi verið brotin

Fyrst gerir Karl Gauti athugasemd við að ekki virðist hafa verið rituð nein fundargerð í Norðvesturkjördæmi af hálfu yfirkjörstjórnarinnar á meðan hún var að störfum. Það hafi þó verið gert í öðrum kjördæmum og spyr Karl Gauti hvers vegna Norðvesturkjördæmi virðist vera eina kjördæmið sem ekki ert skylt að fara að lögum um ritun fundargerða. 

Því næst rekur Karl Gauti að fundargerðir um ákvörðun og framkvæmd endurtalningarinnar virðist hafa verið rituð eftirá. 

Ásamt því gerir Karl Gauti athugasemd við að yfirkjörstjórn virðist ekki hafa skipt með sér verkum eins og eðlilegt má þykja og þannig ekki skipað ritara stjórnarinnar. 

Enn fremur gerir hann athugasemd við að ekki virðist liggja fyrir hver hafi tekið ákvörðun um að endurtalning skyldi fara fram. Þannig segir hann að ekki sé ljóst hvort einn stjórnarmaður í yfirkjörstjórn hafi ákveðið það, aðeins hluti stjórnar eða alls ekki yfirkjörstjórnin yfir höfuð. 

„Varla getur Alþingi sætt sig við að svo mikilvæg ákvörðun sem varðar þingsæti fjölmargra þingmanna liggi óupplýst með öllu?“ segir Karl Gauti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert