Landsréttur vildi ekki þyngja dóm vegna kynlífsmyndbands

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir karlmanni sem hafði verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsli í héraðsdómi fyrir að hafa brotið gegn blygðunarsemi konu með því að hafa sýnt af sér lostugt athfæi með því að taka upp mynd­bönd og mynd­ir af sér og konu stunda kyn­mök án vitn­eskju konunnar. 

Honum var hins vegar gert að greiða konunni 300 þúsund krónur í stað 200 þúsund króna sem héraðsdómur hafði dæmt hann til að greiða. Þá fellur allur áfrýjunarkostnaður á hann.

Maðurinn áfrýjaði málinu til Landsréttar, en saksóknari krafðist þyngri refsingar yfir manninum. Eru brot hans sögð varða við 209. grein almennra hegningarlaga.

Fram kem­ur í dómn­um að brotaþoli hafi leitað á neyðar­mót­töku Land­spít­al­ans 29. des­em­ber 2019 þar sem hún kvaðst hafa verið að skemmta sér á skemmti­stað um nótt­ina þar sem hún hafði hitt ákærða og þau farið sam­an á heim­ili hans þar sem þau hefðu haft sam­far­ir með samþykki þeirra beggja.

Á meðan á sam­förun­um stóð hafði brotaþoli séð ákærða taka upp mynd­band eða mynd­ir af henni á síma sinn. Hún hefði ekki gefið hon­um leyfi fyr­ir slíkri mynda­töku og hefði sagt hon­um að hætta og eyða mynd­un­um. Hefði henni virst sem ákærði hefði orðið við því en talið hugs­an­legt að hann ætti af­rit af mynd­un­um í sím­an­um. Þá kem­ur fram í dóm­in­um að brotaþoli hafi tvisvar þurft að leita sér sál­fræðiaðstoðar vegna at­viks­ins og að málið hafi valdið henni van­líðan. 

Sagðist maðurinn fyrir héraðsdómi hafa stjórnað tónlist úr farsíma sínum á meðan á kyn­mök­um stóð, en eft­ir stutta stund hefði hann síðan í kæru­leysi byrjað að taka mynd­ir og stutt mynd­skeið. Hann hefði hætt því og eytt mynd­efn­inu þegar brotaþoli bað hann um það. 

Fram kemur í dómi Landsréttar að með vísunar til forsendna fyrri dóms verði hann staðfestur fyrir utan bætur til konunnar sem voru sem fyrr segir hækkaðar um 100 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert