Svo virðist sem verið sé að kasta líflínu til viðburðarhaldara með hertum takmörkunum, þar sem 500 mega koma saman í sóttvarnahólfi gegn framvísun neikvæðs hraðprófs.
Þetta segir Ísleifur Þórhallsson, hjá Senu, við mbl.is.
Hann segist þó enn vera að melta fréttirnar sem bárust í morgun af hertum samkomutakmörkunum og slær þann fyrirvara að ekki sé búið að gefa út eiginlega reglugerð um nýjar takmarkanir.
Þrátt fyrir það viðurkennir hann að gleðiefni sé að líklega verði hægt að halda jólatónleika í ár ólíkt því sem var í fyrra.
„Mér sýnist að það sé verið að taka tillit til okkar, já, með því að hafa 500 manns gegn neikvæðu hraðprófi. Mér sýnist að það sé verið að kasta ákveðinni líflínu til okkar og gera okkur kleift að halda jólatónleika,“ segir Ísleifur.
Jólatónleikar eru nú á næsta leiti og eru þeir snar þáttur í jólaundirbúningi tugþúsunda Íslendinga.
Ísleifur segir að með nýjum reglum virðist sem svo að hægt verði að skipta t.a.m. Háskólabíói í tvö 500 manna sóttvarnahólf og Eldborgarsal Hörpu í þrjú hólf.
„Þetta ætti að halda inni Háskólabíó sem væri þá skipt í tvö svæði og Eldborg sem skipt yrði í þrjú svæði og allir minni tónleikar virki þá líka,“ segir Ísleifur.
Þannig það hlýtur að vera gleðiefni fyrir ykkur að það sé ekki verið að taka algjörlega fyrir jólatónleikahald?
„Já, það er gleðiefni. En það breytir því ekki, að við verðum að koma okkur saman um einhvern grunn og eitthvað langtímaplan. Við getum ekki verið í þessu upp og niður, upp og niður og þessari sífelldu óvissu. Við höfum aldrei barist fyrir algjöru hömluleysi og við erum ekki að berjast fyrir því að það eigi hér að sleppa öllum takmörkunum, sem býr til kæruleysi og smit í samfélaginu. Við verðum bara að koma okkur saman um einhvern grunn, sem heldur okkur í rekstri og sem við getum treyst á – þessi óvissa, við getum þetta ekki lengur,“ segir Ísleifur.