Málefni Menntamálastofnunar hafa verið í deiglunni síðustu daga. Yfirstjórn stofnunarinnar og forstjórinn Arnór Guðmundsson fengu falleinkunn í áhættumati sem mannauðsfyrirtækið Auðnast framkvæmdi að ósk menntamálaráðuneytisins. Í bráðabirgðaniðurstöðum kemur fram að sjö af ellefu áhættuþáttum eru metnir rauðir sem táknar óviðunandi áhættu sem bregðast þurfi við án tafar. Í kjölfarið var greint frá því í fjölmiðlum að starfsmenn Menntamálastofnunar hafi sent ályktun til ráðuneytisins í vikunni þar sem kallað er eftir því að Arnór forstjóri láti af störfum. Sú ályktun var samþykkt af yfir 80% starfsmanna og kváðust þeir ekki treysta Arnóri til að byggja upp innri starfsemi stofnunarinnar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem málefni Menntamálastofnunar ber á góma. Stofnunin hefur á liðnum árum til að mynda legið undir ámæli fyrir klúður við framkvæmd samræmdra prófa auk þess sem deilt hefur verið um framkvæmd Pisa-kannana og útgáfu námsbóka.
Menntamálastofnun tók að fullu til starfa haustið 2015 og er stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem skal stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar eins og það er orðað.
Við stofnun Menntamálastofnunar voru Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun lagðar niður en stofnunin tók einnig við verkefnum sem áður voru hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í dag starfa 56 starfsmenn hjá Menntamálastofnun, samkvæmt lista á vef stofnunarinnar.
Af stórum verkefnum MMS ber stofnuninni til dæmis að sjá grunnskólanemendum fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá auk þess að geta haft hlutverk varðandi námsgögn á öðrum skólastigum. MMS á að hafa eftirlit og meta með mælingum árangur af skólastarfi, svo sem með umsjón samræmdra prófa í grunnskólum, og MMS undirbýr skimunarpróf sem nær til bæði leik- og grunnskóla.
Að því er fram kemur á heimasíðu Menntamálastofnunar sér hún um framkvæmd aðgangsprófa í Háskóla Íslands og hefur einnig að segja um eftirlit og mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum. Stofnunin sinnir eftirliti og mælingum á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum, annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og veitir á grundvelli þeirra stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar.
MMS kemur sömuleiðis að framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna, til dæmis viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi og framhaldsfræðsluaðila, innritun nemenda í framhaldsskóla og undirbúningi að staðfestingu námsbrauta- og áfangalýsinga framhaldsskóla, m.a. í tengslum við styttingu náms til framhaldsskóla.
Ýmsar athugasemdir voru gerðar þegar frumvarp um Menntamálastofnun var lagt fram á Alþingi árið 2015. Ekki var mikið deilt um þörfina á nýrri stofnun en þeim mun meira um framkvæmdina og skilgreiningu á hlutverki hennar. Kvartað var til umboðsmanns Alþingis um að flutningur starfsmanna hafi hafist áður en lög um Menntamálastofnun voru sett. Þá þótti furðu sæta að ekki var auglýst eftir forstjóra Menntamálastofnunar þegar hún var stofnuð heldur var búið að ráða hann tæpu ári fyrr. Þannig var í mars 2014 auglýst eftir forstöðumanni Námsmatsstofnunar og í auglýsingu tekið fram að sá sem ráðinn yrði myndi verða forstjóri nýrrar stofnunar. Í lok júlí var tilkynnt um ráðningu Arnórs Guðmundssonar, skrifstofustjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, í starfið. Hann var svo formlega skipaður forstjóri MMS 4. ágúst 2015.
Í umræðum á Alþingi og í umsögnum um lög um Menntamálastofnun kom fram ýmiss konar gagnrýni. Meðal annars var fundið að því að hlutverk stofnunarinnar væri of óljóst, stjórnsýslulegt sjálfstæði hennar ekki tryggt, vald forstjóra væri víðtækt og námsefnisgerð væri ekki gert nægilega hátt undir höfði í lögunum. Eins var bent á að engin stjórn væri yfir stofnuninni líkt og var með hinar fyrri en það gæti leitt til þess að lýðræði skertist á menntavettvangi hér á landi, enda væri stofnuninni ætlað mikilvægt hlutverk í menntakerfinu. Eftir umræður í þinginu var ákveðið að stofna sérstaka ráðgjafarnefnd við hlið forstjórans en í henni eiga sæti fulltrúar þeirra aðila sem áður áttu sæti í stjórnum hinna stofnananna.