Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist sáttur við að heilbrigðisráðherra vilji grípa inn í stöðu sem sé versnandi og að hann geti ekki annað en stutt ráðherrann í því. Hann geri ekki ágreining um að það sé mikilvægt að hefta útbreiðslu veirunnar núna.
„Hins vegar finnst mér þetta vera orðin mjög áleitin spurning hvers vegna við þurfum að fara í svona umfangsmiklar aðgerðir sem eru farnar að líkjast því sem við gerðum fyrir óbólusetta þjóð fyrir ári síðan.“
Það sé í því sambandi mikilvægt að skoða hlutfallstölur; veikindi á móti smitum hjá bólusettum annars vegar og óbólusettum hins vegar. Þá hljótum við í auknum mæli að horfa til veikinda frekar en fjölda smita.
Hann segist binda vonir við að þriðja bólusetningin muni breyta stöðunni og að það verði að setja þessar aðgerðir í samhengi við að nú standi yfir átak vegna örvunarbólusetningar.
Hvað hefðirðu viljað gera öðruvísi, ef eitthvað?
„við erum með ofboðslega mikið álag á kerfinu okkar við að smitrekja, það er greinilega gríðarlega mikið álag á öllu heilbrigðiskerfinu við að hefta útbreiðslu smita. Auðvitað er maður hugsi yfir því hvort einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geti gert meira almennt til að gæta að útbreiðslu smitanna með öllum tiltækum ráðum, þar með talið hraðprófum. Frekar en að vera í almennum boðum og bönnum. Það er eitt af því sem maður hlýtur að hugsa um á þessum tímapunkti.“
Aðspurður segir Bjarni ekkert nýtt í bígerð varðandi efnahagsaðgerðir en hertum aðgerðum nú sé stillt þannig upp að það sé tekið tillit til þess sem gæti verið minna skaðlegt. Til dæmis eins metra reglu í stað tveggja metra reglu.