Sala á Rohypnol ekki aukist

Samkvæmt úttekt Lyfjastofnunar er ekki að sjá að sala á …
Samkvæmt úttekt Lyfjastofnunar er ekki að sjá að sala á sljóvgunarlyfjum hafi aukist með löglegum hætti. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Ekki er að sjá að sala á þeim sljóvgunarlyfjum, sem innihalda efni sem hafa verið notuð til byrlana, hafi almennt aukist undanfarna mánuði. Sala á lyfjunum virðist nokkuð stöðug, nema í tilfelli Rohypnol sem hefur minnkað. Þá hefur sala aðeins aukist á einu lyfi, eða stungulyfinu S-Ketamin Pfizer, en það á einungis að nota á heilbrigðisstofnunum. 

Þetta kemur fram í úttekt Lyfjastofnunar sem mbl.is óskaði eftir. 

Byrlun ólyfjanar hefur verið mikið til umræðu undanfarnar vikur og hefur Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club, líkt ástandinu við eins konar faraldur þar sem byrlunaratvikum hafi fjölgað verulega á skemmtistöðum í Reykjavík.

Hafa þá ungar konur stigið fram og deilt óhugnanlegri reynslu sinni af því að vera byrlað ólyfjan á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur.

Auk þess hafa fjölmiðlar erlendis greint frá því að borið hafi á atvikum þar sem ungu fólki er byrlað ólyfjan með nálarstungum á skemmtistöðum. 

Ekki hlaupið að því að nálgast lyfin

Í samtali við blaðamann sagði Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, að meðal algengustu sljóvgunarlyfjanna sem notuð hafa verið í byrlunum hér á landi væru smjörsýra, Rohypnol, ketamín og MDMA. 

Í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn mbl.is um hvernig sölu þessara lyfja væri háttað með löglegum hætti hér á landi (að undanskildu MDMA), kemur fram að einungis nokkur þeirra séu aðgengileg einstaklingum og þá einungis með tilskilinni ávísun frá lækni. Eru þau þá ýmist eftirritunarskyld eða eingöngu notuð innan veggja heilbrigðisstofnana.

Undantekningartilfelli

Tvö lyf eru á markaði á Íslandi sem innihalda esketamín sem er handhverfa ketamíns. Lyfin eru Spravato, sem er nefúði notaður í meðferð á alvarlegu þunglyndi, og S-ketamín Pfizer stungulyf, sem er m.a. notað við innleiðingu og viðhald svæfingar ásamt því að deyfa og verkjastilla. Eru þessi lyf ekki afhent í apótekum nema í undantekningartilfellum.

Þá segir einnig að notkun lyfsins Spravato sé afar takmörkuð hér á landi en S-Ketamin Pfizer sé töluvert notað á sjúkrahúsum.

Bundin við sérfræðinga

Lyfið Xyrem inniheldur smjörsýru og hefur notkun þess verið samþykkt sem meðferð við svefnflogum með máttleysisköstum hjá fullorðnum, unglingum og börnum eldri en sjö ára. Lyfið er eftirritunarskylt og ávísun þess bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Hægt er að afgreiða lyfið í apótekum en samþykkt notkun þess er mjög takmörkuð og er ekki mikil sala á lyfinu. 

Rohypnol er selt á undanþágu hérlendis en samkvæmt fyrirmælum frá embætti landlæknis skal ekki hefja nýja meðferð með þessu lyfi og eru umsóknir einungis samþykktar með góðum rökstuðningi, t.d. ef viðkomandi hefur verið á lyfinu áður og önnur sambærileg lyf hafa ekki virkað.

Í september samþykkti Lyfjastofnun 63 ávísanir á lyfið og í ágúst voru þær 53. Þá virðist ekki hafa átt sér stað mikil aukning á kaupum frá síðasta ári. Ef eitthvað þá virðist sala hafa minnkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert