Samskipti við 89 fíkniefnakaupendur fundust við rannsókn

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Karlmaður á þrítugsaldri var í síðasta mánuði dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra auk þess sem BMW bifreið og 2,5 milljónir voru gerðar upptækar þar sem sannað þótti að það væri afrakstur ólöglegrar fíkniefnasölu.

Maðurinn var handtekinn í september 2019 og fundust tæplega 400 gr. af maríhúana á heimili hans við leit lögreglu. Þá fundust um 2,5 milljónir á heimili hans, meðal annars í nærfataskúffu og 2,3 milljónir höfðu verið notaðar til kaupa á BMW 5 bifreið.

Við rannsókn lögreglu var meðal annars notast við gögn úr farsíma mannsins, en þar fundust meðal annar samskipti við 89 aðila í gegnum Telegram sem sýndu fram á að hann hafði selt fíkniefni og afhent viðkomandi. Um var að ræða samtals um 840 grömm af kannabisefnum, auk þess sem SMS-skilaboð sýndu fram á sölu upp á 127 grömm til viðbótar. Þá voru samskipti sem sýndu tvær auka sölur sem ekki tókst að staðfesta að afhending hafði farið fram á og eldri samskipti sem ekki var hægt að endurheimta.

Maðurinn játaði að hafa átt fíkniefnin sem fundust hjá honum, en neitaði peningaþvætti vegna þeirra fjármuna sem lögreglan taldi hann hafa aflað af fyrri sölu.

Í dóminum er meðal annars farið yfir að maðurinn hafi flutt hingað til lands fyrir fjórum árum og á þeim tíma hafi hann og sambýliskona hans þurft lán frá tengdamóður mannsins til að eiga fyrir húsaleigutryggingu. Taldi dómurinn það sýna fram á að maðurinn hafi ekki verið fjáður áður en þau komu til landsins, en hann gaf sjálfur upp þá skýringu að hann hefði komið með jafnvirði rúmlega 5 milljóna króna til landsins. Þá var bent á að tekjur þeirra hjóna undanfarin ár hafi verið mjög lágar og ekki til þess fallnar að þau gætu byggt upp nokkurra milljóna sparnað.

„Að mati dómsins verður einnig að fallast á það með ákæruvaldinu að tekjur ákærða og sambýliskonu hans, sem bæði unnu láglaunastörf auk þess sem hann var atvinnulaus mánuðum saman, geti ekki staðið undir eignamyndun að fjárhæð 5,6 milljónir króna á þeim tveimur árum sem þau höfðu búið á Íslandi,“ segir í dóminum. Vísar dómurinn meðal annars til framfærsluviðmiða hér á landi í því samhengi.

Segir í dóminum að rannsókn lögreglu á fjármálaumsvifum ákærða sé „vönduð og ítarleg“ sem byggist meðal annars á gögnum úr farsíma. Þá hafi framburður mannsins verið óstöðugur og ótrúverðugur og skýringar á flutningi reiðufjár til landsins ekki staðist.

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og bifreið og fjármunir gerðir upptækir, auk fíkniefnanna sem fundust. Var það metið honum til framdráttar að hafa sótt sér aukin ökuréttindi í atvinnuskyni síðan málið komi upp og taldi dómurinn að hann hefði ákveðið að snúa við blaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert