„Sennilega öruggasta umhverfið í bænum“

Eldborg í Hörpu.
Eldborg í Hörpu. Ljósmynd/Harpa

„Það er algjörlega frábært að geta boðið upp á sennilega öruggasta umhverfið í bænum, þar sem allir eru hraðprófaðir og með grímu og gætt að öllum persónubundnum smitvörnum,“ sagði Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu. Eldborg hefur verið skipt í sóttvarnahólf auk þess sem framhúsinu verður einnig skipt í hólf.

„Við munum keyra meira og minna viðburði í Eldborg sem eru skipulagðir nú um helgina og áfram eins og áður var ætlað. Við skiptum salnum niður í þrjú hólf og allir verða hraðprófaðir,“ sagði Svanhildur í samtali við mbl.is.

„Við erum óskaplega fegin og þakklát fyrir það að það er hægt að halda menningarviðburði, þrátt fyrir þessar fjöldatakmarkanir,“ sagði Svanhildur. Hún sagði að notkun hraðprófa sé lykilatriði í þeim efnum.

„Nú þegar gestir allra viðburða með yfir fimmtíu manns þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi er lykilatriði að hraðprófsstöðvum verði fjölgað strax og tryggt að opnunartíminn nýtist menningarlífinu,“ sagði Svanhildur. Menningarviðburðir eru yfirleitt á kvöldin og mikilvægt að hraðprófsstöðvar taki tillit til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert