Staðfesta dóm í máli Slayer gegn Secret solstice

Kerry King í Slayer á Secret Solstice árið 2018. Málaferli …
Kerry King í Slayer á Secret Solstice árið 2018. Málaferli hófust eftir hátíðina þar sem sveitin taldi sig ekki hafa fengið fulla greiðslu fyrir að koma fram. mbl.is/ Árni Sæberg

Landsréttur staðfesti í dag dóm sem K2 Agency Limited, umboðsfyrirtæki hljómsveitarinnar Slayer, höfðaði til að fá greidda eftirstandandi þóknun fyrir að spila á hátíðinni í júní árið 2018.

Héraðsdómur hafði áður dæmt Secret Solstice Production ehf. og Friðrik Ólafsson, forsvarsmann félagsins, til að greiða K2 133 þúsund dali, eða um 20 milljónir króna, sem eftirstandandi voru. Var um útivistardóm að ræða, en hvorki Friðrik né einhver fyrir hönd Secret Solstice Production mættu fyrir dómstól vegna málsins.

Friðrik áfrýjaði dómi héraðsdóms, en það gerði Secret Solstice Production hins vegar ekki. Kemur fram í áfrýjunni að Friðrik hafi ekki haft vitneskju um stefnubirtinguna í málinu, en hann bjó árið 2019 í London í Bretlandi. Sagði hann birtingu stefnunnar ekki hafa verið í samræmi við birtingarreglur í Bretlandi.

K2 lagði við meðferð málsins fram eiðsvarna yfirlýsingu bresks stefnuvotts sem hafi afhent stefnuna ónafngreindum íbúa við síðasta þekkta heimilisfang Friðriks í London í febrúar 2019. Þá hafi einnig sama dag verið sett inn um bréfalúgu íbúðar sem skráð var hjá bresku fyrirtækjaskránni stefnubréf.

Féllst Landsréttur á að með þessu hefði verið um löglega birtingu að ræða. Þá er vísað til þess að stefnan var einnig send honum á tölvupósti á tölvupóstfang sem Friðrik notaði enn 15 dögum eftir að stefnan var send þangað.

Telur Landsréttur því ekki að útivist hans hafi verið afsakanleg og staðfestir þar með dóm héraðsdóms. Er Friðriki jafnframt gert að greiða K2 eina milljón í málskostnað fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert