Tollverðir í Kristiansand í Noregi fundu mesta magn fíkniefna, sem nokkru sinni hefur fundist innan þess tollumdæmis, þegar þeir framkvæmdu leit í bifreið, sem kom með ferjunni MS Stavangerfjord frá Hirtshals í Danmörku í mars, en tollgæslan greindi frá málinu í dag.
Tvennt var í bifreiðinni, karlmaður og kona, en í kjölfar lögreglurannsóknar liggur þriðja manneskjan einnig undir grun í málinu, sem kom upp þegar fíkniefnahundur tollgæslunnar sýndi bifreiðinni áhuga. Við margra klukkustunda leit fundust 170.890 ótilgreindar töflur í bifreiðinni, sem tollgæsla tiltekur þó að séu fíkniefni, 2,6 kílógrömm af ketamíni, eitt kíló af hassi og fjögur grömm af amfetamíni.