Stefnuyfirlýsing langt komin

Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson ræddu við fréttamenn að loknum …
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson ræddu við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórnarflokkana stefna á að vera tilbúnir þegar niðurstöður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar liggur fyrir. Ríkisstjórnarmyndun hangir á því hvernig endanleg niðurstaða verður metin í kosningunum. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í byrjun síðustu viku að hann hefði trú á því að unnt væri að mynda ríkisstjórn í þessari viku. Katrín Jakobsdóttir staðfesti þetta einnig í samtali við mbl.is þá og sagði að viðræðum miðaði vel áfram. Átti þá enn eftir að ljúka nokkrum málum.

„Við erum langt komin með að smíða texta í stefnuyfirlýsingu og höfum verið að fara yfir ólík mál,“ sagði hún í samtali við mbl.is í dag.

Eru engin stór ágreiningsmál eftir?

„Auðvitað er það þannig að þetta eru ólíkir flokkar og það munu alltaf vera alls konar mál sem þarf að leysa. En ég tel að við séum búin að fara nokkuð vel yfir hvern einasta málaflokk, ræða þau mál sem við teljum að geti verið álitamál. Ég held að við séum búin að nýta tímann mjög vel í okkar samtölum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert