Truflanirnar urðu vegna álags

Greiðslukerfi Valitors hrundi í gær á degi einhleypra.
Greiðslukerfi Valitors hrundi í gær á degi einhleypra. mbl.is/Hallur

Truflanir á greiðslukerfi Valitor í gær, á einum stærsta netverslunardegi ársins, stöfuðu af álagi sem myndaðist við hápunkt netverslunar, að því er fram kemur í svari fyrirtækisins við fyrirspurn mbl.is.

„Öll færsluhirðing í gegnum netverslanir fer nú fram eftir ríkari kröfum en áður voru, þar sem búið er að innleiða sterk auðkenni (e. Strong Customer Authentication) í lög og kveðið er á um í lagasetningu PSD2.“

Ekki hefur áður borið á þessum truflunum eftir að ríkari kröfur voru gerðar til regluverks um öryggi í kortaviðskiptum, en hinar nýju reglur tóku gildi þann 1. nóv. Áhrifin voru nokkuð víðtæk að sögn Valitor en óljóst er hve mörg fyrirtæki urðu fyrir trufluninni.

Þurfti í einstaka tilfellum að hafa samband við söluaðila vegna færslna

Hvernig endaði þetta? Þarf að endurgreiða mörgum viðskiptavinum eftir að færslur fóru oftar en einu sinni í gegn?

„Þjónustan var hnökralaus eftir 23.40. Sumir viðskiptavinir reyndu aftur og þá fóru færslurnar í gegn. Í einstaka tilfellum þurfti að hafa samband við söluaðila varðandi færslur þeirra. Við leggjum áherslu á að Valitor hefur gripið til ráðstafana með það að markmiðið að tryggja hnökralausa þjónustu. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta olli.“

Engar truflanir hjá Saltpay

Jónína Gunnarsdóttir, yfirmaður rekstrarlausna hjá Saltpay, segir að engar truflanir hafi komið upp í greiðslukerfinu hjá Saltpay eins og gerðist hjá Valitor:

Við vorum búin að gera álagsprófanir á öllum okkar gagnagrunnum til að ganga úr skugga um að þau mundu höndla þessa auknu traffík á stóru dögunum. Við endurræstum okkar gagnagrunna svo þeir myndu vera frískir og tilbúnir fyrir svona álag og dagurinn í gær gekk raunverulega bara iens og í sögu,“ segir hún.

Bætir Jónína við að í gær hafi verið tvöfalt meiri traffík en venjulega í netgreiðslum en þó sé búist við fjórfalt meiri traffík en venjulega á Netmánudegi og Svörtum föstudegi. „Þannig að núna erum við bara að gera allt klárt og hlökkum til því við teljum okkur vel í stakk búin til að höndla það allt saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert