Faraldurinn veldur alvarlegri röskun á heilbrigðiskerfinu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sú aukning sem orðið hefur undanfarið í greiningum á Covid-19 er farin að valda alvarlegri röskun á starfsemi heilbrigðiskerfisins og á öllu eftirliti með covid smituðum einstaklingum. Þetta kemur fram í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis um sóttvarnaraðgerðir innanlands vegna Covid-19.

Mönnunarskortur og vinnuálag óásættanlegt

Í minnisblaðinu segir sóttvarnarlæknir að með vaxandi fjölda smita undanfarið hafi skapast mikið álag á heilbrigðiskerfið og alla innviði sem vinna að því að hefta útbreiðslu Covid-19. Landspítalinn sé á hættustigi sem þýði að veruleg breyting hafi orðið á starfsemi göngudeilda spítalans og veruleg röskun orðið á ýmissi þjónustu.

Þá hafi reglulegt eftirlit landlæknis með stöðu stofnana innan heilbrigðiskerfisins leitt í ljós að mönnun á Landspítala stigist á rauðu sem þýði að mikill skortur sé á starfsfólki og vinnuálag óásættanlegt þrátt fyrir að leitað hafi verið til bakvarðasveitar. Þar að auki sé fjöldi legurýma ekki fullnægjandi á Landspítala. Sama staða sé uppi á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á fleiri heilbrigðisstofnunum.

Frá COVID-19 göngudeild Landspítalans.
Frá COVID-19 göngudeild Landspítalans. Ljósmynd/Landspítali

Starfsemi rakningateymisins í uppnámi

Jafnframt hafi vaxandi fjöldi smita skert eftirlitsgetu Covid-göngudeildar Landspítalans og sett starfsemi rakningateymis sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar í uppnám. Þá séu farsóttarhús að fyllast og álag á Læknavaktina og heilsugæsluna að aukast vegna covid tengdra verkefna.

Í ljósi ofangreindra upplýsina megi fullyrða að sú aukning sem orðið hefur undanfarið á greiningum Covid-19 sé farin að valda alvarlegri röskun á starfsemi heilbrigðiskerfisins og öllu eftirliti með covid smituðum einstaklingum, að sögn Þórólfs.

„Því tel ég brýnt að gripið verði til samfélagslegra aðgerða sem fyrst til að komið verði í veg fyrir enn alvarlegra ástand í heilbrigðiskerfinu og þjóðfélaginu öllu. Einnig vil ég benda á að með útbreiddu smiti í samfélaginu þá mun skapast sú hætta að veikindi í fyrirtækum og atvinnurekstri mun valda verulegri röskun á allri þeirra starfsemi,“ ritar hann í minnisblaðinu.

Undanfarna daga hefur smitum af völdum Covid-19 fjölgað verulega innanlands og óhætt að segja að faraldurinn er nú í veldisvexti, að sögn Þórólfs. Síðastliðna viku greindust 960 smitaðir og í gær greindust 178 manns og er það mesti daglegi fjöldi frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Fjórtán daga nýgengi er nú komið í um 400 á 100.000 íbúa og stefnir það sömuleiðis í það mesta sem hér hefur sést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert