Ekki þótti tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum sem stakk annan mann fyrir utan Hagkaup í Garðabæ í nótt, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Búið er að yfirheyra alla, sem að málinu koma, og var þeim svo sleppt í kjölfarið en málið er í rannsókn.
Gestum Hagkaupa í Garðabæ brá aldeilis í brún þegar blóðugur maður æddi í nótt inn í verslunina, sem opin er allan sólarhringinn. Hann hafði lent í stimpingum við annan mann fyrir utan verslunina.
Þær enduðu þannig að sá síðarnefndi stakk hinn með hníf. Sá sem var stunginn óð þá inn í verslunina og gerði vart við sig. Lögregla var kölluð til ásamt sjúkrateymi og sérsveit lögreglunnar.
„Þetta fór betur en á horfðist,“ segir fulltrúi lögreglu í samtali við mbl.is.
Báðir menn voru í annarlegu ástandi og sá sem stunguna hlaut var fluttur á Landspítala til aðhlynningar.