Gullkista til framtíðar

Hreinn Valdimarsson kann réttu tökin á gömlu efni og vinnur …
Hreinn Valdimarsson kann réttu tökin á gömlu efni og vinnur við að koma því á stafrænt form. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útvarpið með stórum staf hefur verið vinnustaður Hreins Valdimarssonar í rúmlega 47 ár eða síðan í september 1974, en vorið áður lauk hann sveinsprófi í útvarps- og sjónvarpsvirkjun sem kallast nú rafeindavirkjun. „Ég á tæpt ár í að verða sjötugur og allir vita hvað það þýðir,“ segir sérfræðingurinn sem hefur lengi unnið við afritun og hljóðlögun á eldri upptökum Útvarpsins og þar af við yfirfærslu dagskrárefnis af analog segulbandsspólum og lakkplötum yfir á stafrænt form undanfarin 20 ár.

Víðtæk tónlistarreynsla hefur komið Hreini vel sem hljóð- og tæknimaður. Hann bendir á að á fyrstu árunum í Útvarpinu hafi töluvert verið unnið með gamlar hljóðritanir, bæði lakkplötur og gömul, vandmeðfarin, stökk og sleip segulbönd, með tækjabúnaði frá fyrstu árum Útvarpsins. „Þá kom sér oft vel að hafa tónlistarbakgrunn og sæmilegt tóneyra, þekkingu og reynslu sem helst í hendur við tækniþekkingu.“ Bætir við að sagnfræðiáhugi hafi ekki skemmt fyrir.

Hreinn starfaði hjá norska ríkisútvarpinu í Ósló í rúmt ár frá hausti 1977.

„Það var svolítið skrýtin upplifun að vinna á tæki sem voru nýjasta nýtt, eins og að hoppa 25 ár fram í tímann,“ segir hann. Hann hafi fengið tækifæri til að fara á mörg námskeið og vinna við bestu aðstæður með sérmenntuðum og reyndum fagmönnum. Fleiri íslenskir tæknimenn hafi aflað sér svipaðrar reynslu erlendis og hún hafi komið að miklum notum við þátttöku í hugmyndavinnu í sambandi við nýtt útvarpshús sem hannað hafði verið við Efstaleiti. „Upp úr 1980 byrjaði ég svo að fara í ýmis verkefni við afritun og hljóðlögun á eldri upptökum Útvarpsins. Það var svolítið ný upplifun, því með vinnunni komst ég nær kjarnanum í starfsemi Útvarpsins og fékk meiri jarðtengingu við söguna.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjóðminjasafn

Töluverður hluti starfs Hreins hefur verið tengdur vinnu með safnaefni Útvarpsins. Hann upplýsir að yfirfærsla á dagskrárefni hafi verið vistuð með nákvæmri skráningu starfsfólks safnadeildar inn í gagnagrunn til varðveislu og nota í dagskrá Útvarps til framtíðar. Helga Lára Þorsteinsdóttir, deildarstjóri safnadeildar RÚV, segir að um 72.500 segulbönd séu varðveitt í safninu og búið sé að yfirfæra 16% á stafrænt form. „Þetta er risavaxið verkefni. Þar við bætist að eftir því sem hljóðritin eru eldri þarf meiri yfirlegu og natni ásamt mun lengri tíma fyrir vandaða skýrslugerð, sem er eitt af því nauðsynlegasta fyrir not á þessari gullkistu til framtíðar,“ segir Hreinn.

Hann leggur áherslu á að starfið hafi veitt sér mikla ánægju. Hann hafi fengið að hlusta á og taka þátt í varðveislu á ómetanlegum og ógleymanlegum þjóðargersemum. „Fjársjóðurinn er ekki bara til fyrir dagskrárgerð einnar útvarpsstöðvar, heldur mætti flokka hljóðritasafn RÚV undir Þjóðminjasafn, sem geymir sögu, raddir, menningu og tíðaranda íslensku þjóðarinnar til margra áratuga,“ segir Hreinn. „Reiknað hefur verið út að það taki tugi mannára að ljúka við þessar tugþúsundir af segulbandsspólum og lakkplötum. Því er ærið verk fram undan á safnadeild Ríkisútvarpsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert