Í dag liggja 19 sjúklingar með Covid-19 á Landspítala en í gær voru þeir 16. Þrír eru á gjörgæslu en enginn í öndunarvél. Þetta kemur fram í tilkynningu frá spítalanum.
14 eru á smitsjúkdómadeild og tveir á geðdeild. Í tilkynningu segir að fjórar innlagnir hafi verið í gær og séu nú 1.626 einstaklingar í eftirliti göngudeildar, þar af 396 börn.
26 starfsmenn Landspítalans eru í einangrun vegna Covid, 33 eru í sóttkví og 246 í vinnusóttkví. Ekki hafa greinst fleiri smit hjá sjúklingum eða starfsmönnum á heila-, tauga- og bæklunarskurðdeild og var deildin opnuð í gærkvöldi.
Áfram er ein geðdeild lokuð vegna smita en ekki hafa greinst fleiri í skimunum undanfarinna daga. Smit komu upp í Skaftahlíð og í lyfjaþjónustu og er rakningu þar lokið.
Landspítali er enn á hættustigi.