Töluverðar raskanir hafa verið hjá Strætó á landsbyggðinni í dag vegna hvassviðris. Á sama tíma liggur tilkynningarkerfi á heimasíðu Strætó niðri vegna bilunar og tilkynningar um frávik hafa því ekki birst þar.
Margar ferðir hafa fallið niður á leið 57, milli Reykjavíkur og Akureyrar, vegna hvassviðris á Kjalarnesi og við Blikdalsá. Í tilkynningu frá Strætó segir að mjög tvísýnt sé með ferðir á leiðinni það sem eftir er dags.
Einnig hafa verið einhverjar raskanir á ferðum á leið 55, milli Fjarðar og Keflavíkurflugvallar.
Í tilkynningu eru farþegar þessara leiða hvattir til að fylgjast með twittersíðu Strætó, þar sem öll frávik dagsins verða tilkynnt.