Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt eins og sjá má á tilkynningu lögreglunnar þennan morguninn.
Þar ber einna hæst að lögregla var kölluð til vegna slagsmála í Garðabæ, sem enduðu með því að tveir menn hlutu stungusár. Tveir menn voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna málsins, sem nú er í rannsókn. Þeir sem hlutu sár voru fluttir á bráðamóttöku með sjúkrabíl og eru ekki alvarlega slasaðir.
Líklegt má telja að hér sé verið að vísa í mál sem fjallað var um í nótt, þar sem sagt var frá stunguárás við verslun Hagkaupa í Garðabæ. Lögregla og slökkvilið, sem mættu bæði á vettvang, gátu ekki tjáð sig um málið þegar leitað var eftir því í gær.
Þar fyrir utan var framið rán úr verslun í hverfi 105 í gær og hafði maður á brott með sér peninga. Málið er til rannsóknar.
Þá var mikið um að lögregla hefði afskipti af ölvuðum mönnum víða um borgina. Einn slíkur var handtekinn í hverfi 203 í nótt vegna eignaspjalla. Hann skallaði lögreglu í andlitið þegar átti að handtaka hann og hótaði hann lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. Hann er nú vistaður í fangaklefa.
Svipaða sögu er að segja af manni sem handtekinn var í hverfi 112 eftir að hafa ráðist á mann og rotað hann. Þegar lögregla mætti á vettvang og ætlaði að ræða við manninn réðst hann á lögreglumann og kýldi í andlitið. Hann gistir nú fangaklefa.
Þá voru allnokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur.