„Þetta verk fjallar ekki um Ástandið heldur er það fremur samtal samtímans með tungumáli fortíðarinnar,“ segir hljóðlistakonan og tónskáldið Ingibjörg Friðriksdóttir, sem er þekkt undir listamannsnafninu Inki, í Sunnudagsblaði helgarinnar. Þar ræðir hún um verk sitt Meira Ástandið, eða Quite the Situation, en efniviður verksins eru greinaskrif Íslendinga frá stríðsárunum.
Verkið er þrískipt en það samanstendur af bókverki, plötuútgáfu sem gefin var út af Inni Music, og hljóð- og vídeóinnsetningu sem frumsýnd var í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík í júní.
Ingibjörg leggur áherslu á að verkið fjallar ekki síður um samtímann og þá orðræðu sem finnst í samfélaginu í dag.
„Ég er að nota þessar setningar til þess að spyrja hvernig mun samtal samtímans líta út eftir áttatíu ár. Það er hugmyndin, að blanda saman þessari fortíð, núinu og síðan framtíðinni. Ég er í rauninni að nýta þetta til þess að ýta af stað einhvers konar samtali núna um það hvernig við tölum um konur í dag og hvernig við viljum stjórna þeirra einkalífi.“
Viðtalið við Ingibjörgu má finna í heild í Sunnudagsblaðinu.