Vilja að lögreglan stígi á pedalann

Birgi Fannar Birgisson.
Birgi Fannar Birgisson. mbl.is/Arnþór

Hjólreiðamenn eru margir ekki sáttir við hvernig lögreglan tekur á reiðhjólaþjófnaði og auglýsingum á reiðhjólum í óskilum. Einhverjir þeirra saka lögregluna um að draga lappirnar í að hafa uppi á eigendum reiðhjóla í óskilum. 

Birgir Fannar Birgisson, frammámaður í Reiðhjólabændum, segir að hjólreiðafólk kalli eftir meiri samvinnu með lögreglunni til þess að bæta um betur.

Hann segir þannig að það sé fullt sem lögreglan getur betur gert, sem og hjólreiðafólk, til þess að fleiri hjól skili sér til eigenda sinna eftir að hafa týnst eða verið stolið.

„Við erum frekar ósátt við stöðu mála, án þess að ætla að kenna lögreglunni alfarið um þetta þar sem það eru örugglega hlutir þeirra megin sem gera þeirra innkomu í málið erfiða,“ segir Birgir við mbl.is.

Það tíðkast hjá lögreglunni, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu, að auglýsa reglulega hluti í óskilum og tilkynna þannig að eigandinn geti nálgast hlutina gegn því að hann færi sönnur á að hann sé réttmætur eigandi. 

Hér að neðan má til dæmis sjá eitt slíkt tilfelli, þar sem verkfæri voru auglýst í óskilum og eigandi beðinn að hafa samband. Undir færsluna skrifa fjölmargir hjólreiðamenn athugasemdir og fagna framtakinu, en spyrja um leið hvers vegna þetta er ekki gert með reiðhjól.

Lögreglan öll af vilja gerð

Þórir Ingvarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn þjónustudeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikill vilji sé meðal lögreglumanna til samstarfs. 

Hann segir að á pinterestsíðu lögreglunnar megi finna ótal reiðhjól og hlaupahjól í óskilum. 

Hins vegar sé oft erfitt að hafa uppi á eigendum þar sem margir skila ekki inn raðnúmerum reiðhjóla þegar þeir tilkynna rafrænt um hjól í óskilum. 

Þórir Ingvarsson.
Þórir Ingvarsson. mbl.is/Júlíus

„Við erum búin að einfalda mjög tilkynningar frá almenningi um stolin reiðhjól og stolin reiðhjól voru fyrsta rafræna eyðublaðið sem við opnuðum á. Það var gert einmitt vegna þess að við vorum að reyna að bæta skráningar í þeim málum sérstaklega, af því við töldum að það væri mikilvægt að þessi brot væru tilkynnt og að þröskuldurinn til að tilkynna þau væri sem lægstur,“ segir Þórir og bætir við að öll reiðhjól sem koma í óskilamuni lögreglunnar séu samkeyrð við gagnagrunn yfir hjól sem hafa verið tilkynnt stolin áður en þau eru svo auglýst sem óskilamunir. 

„Vandinn er líka sá að eigendurnir eru í mörgum tilvikum ekki að tilkynna reiðhjólið stolið með raðnúmeri. Og þá er kannski svolítið úr vöndu að ráða.“

Þórir segir að reiðhjólaeign landsmanna hafi aukist gríðarlega síðustu ár sem gerir að verkum að þjófnaður á reiðhjólum er tíðari. Reglulega komi inn á hans borð reiðhjól sem hefur verið stolið og hlaupi á hundruðum þúsunda króna í virði eða jafnvel rúmri milljón. Þess vegna sé reiðhjólaþjófnaður skiljanlega mikið hjartans mál fyrir mörgum þar sem tjónið er alla jafna mikið. 

„Við viljum samstarf. Við viljum koma af stað einhverju, en við getum kannski illa verið að reka einhverja þjónustu sem er svona samfélagsverkefni og sjálfboðaliðaverkefni, en við getum komið inn í það og hjálpað til. Auðvitað eigum við að vera að rannsaka sakamál og standa okkur vel í því en við viljum samstarf og við viljum hjálpa til og reyna að finna út úr því hvernig við getum komið þessu þannig fyrir að allir njóti góðs af,“ segir Þórir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert