Kórónuveirusmit greindist hjá nemanda á miðstigi Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla á Breiðdalsvík í gær. Vegna þessa munu allir nemendur skólans í 1.-6. bekk fara í sóttkví ásamt nokkrum starfsmönnum skólans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi.
Þar segir að aðrir nemendur skólans muni fara í smitgát. Þar að auki mun allt skólahald 1.-10. bekkjar falla niður á morgun, mánudag. Leikskólastarf skólans verður þó með eðlilegum hætti.
Í tilkynningu lögreglunnar segir einnig að eitt smit hafi greinst til viðbótar á Vopnafirði þar sem nýverið kom upp hópsmit. Viðkomandi var þó í sóttkví við greiningu og er því ekki talin þörf á frekari smitrakningu vegna smitsins.