Hafa enn ekki rakið uppruna salmonellu-hópsmits

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrettán greindust með salmonellu á Íslandi í september en sóttvarnalæknir segir að um hópsýkingu hafi verið að ræða. Þeir smituðu eru búsettir víðsvegar um landið en ekki hefur enn tekist að rekja sýkingarnar til neinna ákveðinna matvæla.

Sýkingin virðist vera angi af stærri hópsýkingu sem breiðist nú út í Evrópu. Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu Farsóttafrétta sóttvarnalæknis.

Sýnin send út til Danmerkur 

Flestir þessara þrettán veiktust daganna 27. ágúst og til 2. september. Stór hluti hópsins, eða níu þeirra, voru að taka einhverskonar sýruhemlandi lyf en þau auka líkurnar á smiti. 

„Til að staðfesta að um hópsýkingu með sama Salmonella stofni væri að ræða voru sýnin send til Statens Serum Institut (SSI) í Danmörku til raðgreiningar. Sú rannsókn staðfesti að Salmonella smitin þrettán voru af völdum sama S. typhimurium stofns. Einnig leiddi frekari skoðun í ljós að íslensku smitin voru náskyld S. typhimurium hópsýkingu í Hollandi sem hafði verið tilkynnt til sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) fyrr í september,“ segir í fréttabréfinu en smit af sama stofni greindust einnig í Belgíu og Danmörku.

Sóttvarnarstofnun Evrópu hefur hópsmitið til rannsóknar og leitar að uppruna sýkinganna innan álfunnar.

Raðgreining salmonellusýna hefur gert embætti landlæknis kleift að fá betri yfirsýn yfir hvaða sýkingar megi rekja til sama stofns.

„Í september og október greindust þrír einstaklingar til viðbótar með sömu sermisgerð S. typhimurium hérlendis en raðgreining leiddi í ljós að um aðra stofna var að ræða. Virðist því sem ofangreind hópsýking sé afstaðin,“ segir í fréttabréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert