Segir samninginn vera „fall fram á við“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Mbl.is/Hari

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir þann samning sem var samþykktur á COP26 ráðstefnunni í gær vera „fall fram á við“. Eftir framlengdan fund samþykktu allir leiðtogar ríkja Sameinuðu þjóðanna nýjan loftslagssamning.

„Þetta var þó nokkur árangur, þó það megi vitanlega deila um hversu mikill. Það er þarna í fyrsta skipti nefnt það sem núna kallað f- orðið, eða fossil fuels (jarðefnaeldsneyti), og verkefnið að losa sig við það. Það var að vísu gert með mjög veikum hætti en það er engu að síður skref áfram,“ segir Árni.

Mikilvægt fyrir ríki þriðja heimsins

Samkomulagið og fyrirheit um aukin fjárframlög eru að sögn Árna gífurlega mikilvæg fyrir þróunarríki þar sem loftslagsváin sé nú þegar raunveruleg. Þar skorti auk þess oft fjármagn til þess að bregðast við því tjóni sem breytingarnar kunni að hafa í för með sér. 

Árni segir erfitt að svara því hvort samningurinn sé eins stórt skref og hann hafði gert ráð fyrir áður en ráðstefnan hófst.

„Menn setja sér viðmið og krafan fyrir fundinn var að ríkið myndi mæta til leiks með meiri aðgerðir til að draga úr losun. Í gær kom fram mjög sterk gagnrýni frá þriðja heims ríkjum sem eru í mikilli hættu til dæmis Marshall-eyjar sem eru í hættu á að sökkva í sæ ef ekki tekst að takmarka hlýnun við 1,5 gráður,“ segir Árni.

Aðgerðarsinnar í París hvöttu þjóðarleiðtoga til róttækra aðgerða á ráðstefnunni …
Aðgerðarsinnar í París hvöttu þjóðarleiðtoga til róttækra aðgerða á ráðstefnunni en margir telja ríkin ekki hafa gengið nægilega langt með samningum sem var samþykktur í gær. AFP

Eftirfylgnin afar mikilvæg

Reglulegri endurskoðun en áður og meiri eftirfylgni er jákvæð þróun að mati Árna. „Það er náttúrulega ekki nóg að gert varðandi samdrátt í losun en það verður tekið fyrir strax á næsta ári og endurskoðað. Þá eykst þrýstingurinn á aðildarríkin að gera betur,“ segir hann og vísar til Parísarsamkomulagsins í því samhengi en endurskoðun þess á að fara fram á fimm ára fresti. 

„Ríki heims verða að halda áfram að reyna að ná þessu markmiði. Það er mjög skýr krafa af hálfu ríkja þriðja heimsins til dæmis. Þá er ég ekki að tala um Kína og Indland heldur fyrst og fremst Afríkuríkin sem munu auðvitað glíma við þurrka og annað slíkt. Svo held ég líka að það sem Evrópuríkin sjái fyrir sér sé flóttamannastraumurinn frá Afríku. Það er ógn bæði fyrir Afríku og Evrópu,“ segir Árni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert